Skoðun

Burt með sjálf­töku og spillingu

Sigurjón Þórðarson skrifar

Flokkur fólksins er með í mótun almennar framsæknar breytingar á úthlutunarreglum um sértæka byggðakvóta Byggðastofnunar. Tillögurnar munu setja fólkið í sjávarbyggðunum í fyrsta sæti og verða vítamínsprauta til að efla frumkvæði heimamanna. Við viljum aftengja þá undarlegu kröfu að forsenda samnings um úthlutun á veiðiheimildum sé aðkoma sykurpabba sem tilheyra kvótaaðlinum.

Núverandi útfærsla á úthlutun veiðiheimilda Byggðastofnunar, fyrir fleiri milljarða kr. á ári, byggist á samningum við aðila sem hafa margir hverjir lítil eða jafnvel engin tengsl við þær byggðir sem fá úthlutun en hafa þeim mun sterkari tengsl inn í stjórnkerfið.

Sumir þessara samninga sem samþykktir hafa verið til nokkurra ára hafa orðið að verðmætri söluvöru um leið og blekið þornaði á undirskriftunum. Síldarvinnsla Samherja, sem hefur sett atvinnulíf Seyðisfjarðar í uppnám, fær t.d. árlega megnið af byggðakvótanum sem ætlaður er Þingeyri, en landar ekki einum einasta sporði í þorpinu!

Í nokkrum byggðum fer ekki fram nein vinnsla á þeim afla sem veiddur er á grundvelli byggðasjónarmiða og í enn öðrum fer fram einhver málamyndavinnsla, sem verður hætt um leið og ekki verður framhald á úthlutun á byggðakvótum.

Við í Flokki fólksins viljum treysta frumkvæði íbúanna sjálfra með eftirfarandi tillögum:

Koma þarf á löndunarskyldu á byggðakvóta í brothættu byggðunum, en taka af vinnsluskyldu.

Allur fiskur taki verð á frjálsum markaði, þó þannig að 20% af andvirðinu renni til uppbyggingarsjóðs í viðkomandi byggðarlagi.

Fiskvinnslur í viðkomandi sveitarfélagi hafa forgang að aflanum á 15% afslætti af meðalverði á markaði, en þá færi aðeins 5% til uppbyggingarsjóðs í byggðarlaginu.

Skipting á milli báta í hverju byggðarlagi en jafnframt yrði gerð krafa um að meirihluti áhafnarmeðlima væri með lögheimili í viðkomandi byggð.

Flokkur fólksins vill frelsa sjávarþorpin undan kvótaaðlinum, og um leið skapa fjármagn til sóknar í öðrum atvinnurekstri. Við fordæmum með öllu þá aðför sem tíðkast hefur að áður blómlegum sjávarbyggðum allt í kringum landið. Það er löngu tímabært að vinda ofan af þeirri óheillaþróun sem hér hefur fengið að viðgangast. Snúum þessari öfugþróun til betri vegar.

Höfundur er varaþingmaður Flokks fólksins. 




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×