Handbolti

Búsett í Danmörku en flýgur heim í leiki með Aftureldingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sylvía Björt Blöndal ferðast lengri vegalengdir en flestir til að spila í Olís-deildinni.
Sylvía Björt Blöndal ferðast lengri vegalengdir en flestir til að spila í Olís-deildinni. Vísir/Hulda Margrét

Handknattleikskonan Sylvía Björt Blöndal hefur farið vel af stað með Aftureldingu í Olís-deild kvenna í handbolta og skorað 14 mörk í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Hún er hins vegar búsett í Danmörku og þarf því að fljúga til Íslands til að spila leiki liðsins.

Það er Handbolti.is sem vekur athygli á þessu, en Sylvía stundar meistaranám í Danmörku. Hún mun halda áfram að leika með liðinu eftir því sem hún hefur tök á þrátt fyrir að búa ytra næsta árið.

Eftir því sem kemur fram í umfjöllun Handbolti.is um málið hefur Sylvía flogið heim til Íslands á föstudagskvöldum og aftur út til Danmerkur á sunnudögum. Það kemur svo í hlut Aftureldingar að greiða ferðakostnað.

Afturelding hefur leikið tvo leiki það sem af er tímabilinu í Olís-deild kvenna. Liðið er nýliði í deildinni eftir að hafa tryggt sér sigur í Grill66-deildinni á síðasta tímabili og Sylvía hefur skorað 14 mörk fyrir liðið í leikjunum tveimur. Hún skoraði sjö mörk í 31-26 tapi gegn ÍR og önnur sjö í 29-28 sigri gegn Stjörnunni.

„Námið hefur að sjálfsögðu algjöran forgang en Sylvía kemur heim og verður með okkur í þeim leikjum sem hún hefur tök á að taka þátt í,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar í samtali við Handbolti.is.

Sylvía mun sjálf sjá um að halda sér í formi með æfingum úti í Danmörku, auk þess að vera í reglulegu sambandi við þjálfara og leikmenn Aftureldingar.

Næsti leikur Aftureldingar í Olís-deildinni er gegn Haukum næstkomandi fimmtudagskvöld, en óvíst er hvort Sylvía verði með í þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×