Undanfarið hefur mátt greina það í fjölmiðlum ytra að fyrrum samstarfsmenn og nánir vinir Michaels hafa verið að tjá sig um hann og ýja að því hver staðan sé í raun og veru hjá þessari goðsögn í sögu Formúlu 1 mótaraðarinnar og íþróttaheimsins.
Lítið hefur verið gefið upp hver staða Michaels í raun og veru sé eftir þetta hörmulega skíðaslys árið 2013. Fjölskylda hans hefur virt þá ósk Michaels að halda einkalífi fjölskyldunnar fjarri kastljósi fjölmiðla, regla sem hann hafði sjálfur í heiðri á meðan á ökumannsferli hans í Formúlu 1 stóð.
Á dögunum birtist viðtal við vin Schumachers, fyrrum fjölmiðlamanninn Roger Benoit í svissneskum miðli og þar sagði Benoit stöðu Schumachers vonlausa.
Herbert, sem var liðsfélagi Michaels hjá Formúlu 1 liði Benetton á sínum tíma, fékk veður af þessu viðtali sem Benoit fór í og endurómar það sem hann sagði.
„Það eru í raun ekki nýjar fréttir. Það sem við vitum núna er að við fáum aldrei jákvæðar fréttir,“ segir Herbert um stöðuna á fyrrum liðsfélaga sínum. „Það er það hræðilega við þetta, hann er ekki nálægt því að vera sá Michael sem við öll þekktum. Það er mjög sorglegt.“

Herbert segir ástand Michaels skiljanlega hafa haft mikil áhrif á yngri bróðir hans Ralf Schumacher, sem einnig á að baki feril í Formúlu 1. Herbert segir Ralf hafa þroskast mun hraðar í kjölfar þessa alvarlega slyss sem bróðir hans lenti í.
„Hann hefur breyst töluvert og persónuleiki hans er mjög ólíkur þeim sem við sáum þegar að hann var ökumaður í Formúlu 1,“ segir Herbert sem hefur unnið með Ralf í kringum útsendingar Sky í Þýskalandi í tengslum við Formúlu 1.

„Hann er góð manneskja,“ segir Herberg um Ralf. „En hefur fengið aukna ábyrgð á sínar herðar eftir það sem gerðist fyrir eldri bróður hans og hefur þurft að takast á við ýmislegt.“