Eftir jafnar upphafsmínútur náðu gestirnir frá Ungverjalandi forystunni og leiddu stærstan hluta fyrri hálfleiksins. Veszprém náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik og sá var munurinn þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 18-21.
Heimamenn í Magdeburg byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkunum eftir hlé. Liðið var þar með búið að minnka muninn niður í eitt mark, en gestirnir sigu fram úr á ný og náðu upp sex marka forskoti í stöðunni 22-28.
Það bil náðu heimamenn aldrei að brúa og niðurstaðan varð fimm marka sigur Veszprém, 28-33, og titilvörn Magdeburg hefst því á tapi.
Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg í kvöld og Janus Daði Smárason skoraði eitt.