Viðskipti innlent

„Er matur raun­veru­lega dýr á Ís­landi?“ spyr for­stjóri Haga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Finnur Oddsson er forstjóri Haga.
Finnur Oddsson er forstjóri Haga. Vísir/Vilhelm

„Er matur raunverulega dýr á Íslandi?“ spyr Finnur Oddsson, forstjóri Haga, í viðtali við Morgunblaðið. Hann segir að færa megi rök fyrir því að það sé ódýrara fyrir „heimafólk“ að kaupa í matinn hérlendis en á flestum stöðum í Evrópu, að minnsta kosti hlutfallslega miðað við útgjöld eða laun.

„Það er reyndar skiljanlegt að við fáum þessa tilfinningu þegar við förum með okkar íslenska kaupmátt og verslum erlendis, einkum í suðurhluta Evrópu. En samanburðurinn er aðeins villandi, því réttara væri að skoða verðlag í hverju landi í samhengi við heildarútgjöld heimila, ráðstöfunartekjur eða rekstrarkostnað á viðkomandi stað, segir Finnur við Morgunblaðið.

„Þannig mælt, þá telur matarkarfa heimila á Íslandi um 13% útgjalda, sem er lægra hlutfall af útgjöldum en meðaltal um 30 Evrópulanda, allt frá Noregi til Portúgals, sem er tæplega 16% (m.v. árið 2021). Á síðustu tíu árum hefur þetta hlutfall lækkað á Íslandi en hækkað í nágrannalöndunum.“

Spurður að því hver ber ábyrgð á verðbólgunni segir Finnur samfélagið komið í einhvers konar samkvæmisleik, þar sem enginn vilji halda á Svarta-Pétri. Það sé ef til vill mesti skaðinn af verðbólgunni; hún ali á tortryggni og rýri traust.

„Það sem setur verðbólguskotið af stað eru alþjóðlegar kringumstæður sem mynda verðbólguþrýsting innanlands. Þann þrýsting er erfitt að hemja með aðgerðum SÍ. Að auki kynda svo aðstæður á húsnæðismarkaði og miklar launahækkanir enn frekar undir verðbólgunni,“ segir Finnur, spurður að því hvort Seðlabankinn sé á réttri leið með ítrekuðum stýrivaxtahækkunum.

Verðbólgan sé engum einum að kenna og enginn einn ráði við hana.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×