Skoðun

Upp­lifun seðla­banka­stjóra

Karl Guðlaugsson skrifar

Seðlabankastjóri hélt ræðu á Hólum í Hjaltadal í ágúst þar sem hann gerði að umtalsefni framtíð og upplifun komandi kynslóða. Ungt fólk í blóma lífsins og þar með talin þrjú af börnum mínum fjórum með mökum, tóku lán vegna húsnæðiskaupa eftir að Seðlabankastjóri talaði um að loksins gætu íbúðarkaupendur greitt sambærilega vexti af lánum sínum og jafnaldrar þeirra í Evrópu. Mánaðarleg afborgun óverðtryggðs láns með breytilegum vöxtum var í byrjun kr. 177,000.-. Fyrir, ég ítreka, fyrir þessa fjórtándu vaxtahækkun Seðlabankastjórans hefur mánaðarleg afborgun þessa láns vegna íbúðakaupa hækkað um kr.203,000.- og er komin í kr.380,000.- á mánuði. Ég spyr Seðlabankastjóra hvar á ungt fólk að finna kr.203,000.- aukalega mánaðarlega til að borga af slíku láni? Ég leyfi mér að fullyrða að enginn af þessu unga fólki sem ber slíka aukna mánaðarlega greiðslubyrði geti valdið „þenslu“ eða „spennu“ í hagkerfinu, enginn. Samt ræðst Seðlabankastjóri á þennan viðkvæma hóp skuldara, fjöregg þjóðarinnar og telur okurvexti á þau leysa hagvaxtar-„vandann“. Seðlabankastjóri verður að finna sökudólga þenslunnar í öðrum en þessum ungu ólánsömu lántakendum.

Seðlabankastjóri situr núna í glerhýsi sínu og segir að unga fólkið sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið eigi að tala við bankann sinn vegna aukinnar greiðslubyrði sem á mannamáli þýðir að lengja í hengingarólinni og setja sig í enn meira skuldafangelsi.

Upplifun barnanna minna og komandi kynslóða á Íslandi sem þurftu að taka lán vegna húsnæðiskaupa stefnir því miður í aðra átt en Seðlabankastjóri talar um. Þau taka ekki táslumyndir af sér á Tenerife og þau taka ekki myndir af sér skálandi í kampavíni við sundlaugabakka á Ítalíu. Þau verða þrælar óstöðugs gjaldmiðils, okurvaxta og hafa ekki hugmynd um hvað matarkarfan mun kosta í næsta mánuði.

Ég veit ekki hvort Seðlabankastjóri kom við á Sauðárkróki á leið sinni til Reykjavíkur eftir ræðuna á Hólahátíð. En eins og staðan er núna er ég mest hræddur um að Kaupfélagsstjórinn í Skagafirði þurfi að senda unga fólkinu sem skuldar húsnæðislán, margar matarkörfur fyrir næstu jól.

Höfundur er faðir fjögurra barna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×