Skoðun

Eru neyslu­vatns­kerfin okkar of dýr og ó­heilsu­sam­leg?

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Aðgengi að hreinu neysluvatni er hverju samfélagi mikilvægt. Vatnsskortur og mengun vatns sem bera með sér óæskilegar örverur sem geta valdið sjúkdómum eru helstu ógnir við lýðheilsu okkar. Til að koma í veg fyrir vatnsborna faraldra hér á landi hefur áhersla verið lögð á að vakta og vernda vatnsbólin okkar. En er það nóg?

Fyrir tólf árum síðan eða í mars árið 2011 gaf alþjóða heilbrigðismálastofnunin WHO út skýrslu er varðaði gæði neysluvatns í byggingum. Helstu niðurstöður hennar sýndu að léleg hönnun og stýring vatnslagnakerfa í byggingum getur valdið sjúkdómum ekkert síður en vatnsbólin sjálf gera. Í kjölfarið fóru Bretar af stað með rannsókn á því hvort að þau viðmið sem þeir byggðu á við hönnun neysluvatnskerfa í íbúðarhúsnæðum og öðrum byggingum gæfu rétta mynd af raunverulegri neysluvatnsnotkun. Í stuttu máli sagt að þá komust þeir að því að þeir yfirhönnuðu neysluvatnskerfin sem þýddi að dælur og rör kerfanna þeirra voru stærri en þau þurftu að vera og þá einnig dýrari í uppsetningu. Sverari rör þýða einnig lægri vatnshraða og minni endurnýjun vatns í lagnakerfunum. Hætta á stöðnu vatni með hættu á skaðsömum bakteríum sem því fylgir var því til staðar. Ein þeirra er Legíónellabakterían.

Náttúruleg heimkynni Legíónellabakteríunnar sem einnig er kölluð hermannaveikin eru sem dæmi í vatni, en bakterían þolir hitastig frá 0–63°C og er kjörhitastig hennar um það bil 30–40°C. Legíónellabakterían getur lifað árum saman í vatnstönkum við 2–8°C og sest oft að í lokuðum endum pípulagna stórra bygginga þar sem vatnið stendur kyrrt og hitastig er ekki hátt. Meðgöngutími hermannaveiki er 2-10 dagar og dauðsföll verða í 5-30% tilfella.

Bretarnir komust að því að þeir þyrftu að breyta sínum hönnunarviðmiðum hið snarasta og gerðu það fyrir stuttu síðan. Við íslenskir hönnuðir erum skyldugir til að hanna lagnakerfi samkvæmt ÍST67 en staðallinn inniheldur sérákvæði við danska staðalinn DS 439:2009 Norm for vandinstallationer. Samkvæmt rannsókn Bretanna erum við að yfirhanna neysluvatnskerfin okkar (sjá mynd). Er ekki kominn tími til að staldra við og gera svipaða rannsókn og Bretarnir gerðu í kjölfar úttektar WHO svo við íslendingar getum treyst því að neysluvatnið okkar sé það besta í heimi?

Höfundur er byggingarverkfræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×