Innlent

„Ef það eru ekki mávar þá er það seðla­banka­stjóri“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mávar eru ekki allra og eiga undir högg að sækja að sögn Jóhanns.
Mávar eru ekki allra og eiga undir högg að sækja að sögn Jóhanns.

Fugla­fræðingur segir aukinn á­gang máva á höfuð­borgar­svæðinu og kvartanir vegna þeirra vera ár­legan við­burð. Ungar séu að komast á legg og þeir stundi gjarnan á­hættu­samari hegðun en eldri mávar. Hann segir máva eiga erfitt upp­dráttar, líkt og aðra sjó­fugla, þeir þurfi á sínu plássi og gjarnan verða fyrir barðinu á því sem hann kallar tegundarasisma.

Í­búar á höfuð­borgar­svæðinu hafa rætt aukinn á­gang máva á hverfis­hópum á sam­fé­lags­miðlinum Face­book. Meðal annars hafa í­búar rætt læti í mávum í vestur­bæ Reykja­víkur og þá hefur verið at­hugað með hreiður á toppi fjöl­býlis­húsa í Sjá­lands­hverfi í Garða­bæ vegna fjölda máva.

„Þetta er þessi ár­lega um­ræða,“ segir Jóhann Óli Hilmars­son, fugla­fræðingur, í sam­tali við Vísi. Mikil umræða átti sér stað um máva í mannabyggð í fyrra en Garðbæingar sögðust langþreyttir á ástandinu og veltu einhverjir því upp hvort mávar væru árasargjarnari en áður. 

 Jóhann Óli segir síst meira um máva í manna­byggð nú en síðustu ár. Upp úr 2005 hafi sílar­mávar í auknum mæli sótt í manna­byggð eftir að stofnar sand­sílis hrundu en á­standið svo aftur skánað rúmum tíu árum síðar.

„En þetta hefur alltaf verið reytingur af fuglum sem mætir í bæina. Sér­stak­lega á tímum sem þessum þegar ungarnir eru komnir, þá eru þeir meira á­berandi. Þeir eru vit­lausir, há­værir, frekir og ekki búnir að læra á lífið.“

Frekar dapurt á­stand hjá sjó­fuglum

Jóhann Óli ræddi á­stand sjó­fugla við frétta­stofu fyrir tveimur árum síðan. Þá hvatti hann til þess að þeir væru friðaðir og sagði á­stand þeirra dapurt, þeim hefði fækkað mikið vegna hlýnandi sjávar­hita.

„Þetta stefnir allt niður á við hjá mávum rétt eins og öðrum sjó­fuglum. Þetta er allt frekar dapurt. Það er þó mis­munandi eftir því hvaða tegund er um að ræða en sex tegundir verpa hér á landi. Svart­baknum hefur fækkað. Sílar­mávurinn virðist lafa og hettu­mávurinn er í sæmi­legu standi.“

Jóhann Óli segir nei­kvæðri um­ræðu um máva reglu­lega skjóta upp kollinum og þá sér­stak­lega á þessum tíma árs. Mávar fari í taugarnar á fólki.

„Við köllum þetta stundum tegundarasisma. Þetta eru meira og minna for­dómar. Þeir fara í taugarnar á fólki en þetta er í flestum til­vikum indælir fuglar. Það er einn og einn erfiður, að næla sér jafn­vel í unga og það fer enn meira í taugarnar á fólki.“

Ljóst sé að svöng dýr leiti sér að æti. Mávar geri þannig engan greinar­mun á steik á grilli, brauði við tjörnina sem eigi að fara til anda, eða annars mat.

„Þetta er ár­legur söngur. Við þurfum alltaf að hafa eitt­hvað til að kvarta yfir. Ef það eru ekki mávar þá er það seðla­banka­stjóri, eða þá tófan,“ segir Jóhann á léttum nótum.

Jóhann Óli hefur miklar áhyggjur af stöðu sjófugla við Ísland. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×