Neytendur

Minni bjór­glös og buddan tæmist hraðar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bargestir ræddu um minnkun bjórglasa og hærra bjórverð.
Bargestir ræddu um minnkun bjórglasa og hærra bjórverð. vísir

Bjórglösin á mörgum börum miðbæjarins hafa minnkað. Stór bjór, sem áður var í fimm hundruð millilítra glösum, er nú kominn í fjögur hundruð millilítra glös. Um er að ræða tuttugu prósent minnkun bjórglasa. Neytendur, sérstaklega þeir í yngri kantinum, eru ósáttir við þessa þróun enda hefur bjórverðið hækkað töluvert á sama tíma.

Áður hefur verið fjallað um minnkun bjórglasa á Vísi. Rætt var við Jón Mýrdal veitingamann í Íslandi í dag sem sagði minnkunina ekkert samsæri og sagði glösin 400 millilítra einfaldlega huggulegri.

En hvað segja neytendur um þessa þróun? Vísir leit við á nokkrum börum í miðbænum til þess að kanna einmitt það.

Buddan tæmist hraðar á djamminu

„Þetta er bara skelfilegt,“ segir Svanur Davíð sem gæddi sér á Peroni í 0,4 glasi á Veður bar, ásamt vinum sínum Arnari og Breka áður en þeir héldu í Fossvoginn til að styðja sína menn í Víkingi áfram í Evrópukeppni. 

„Þetta ýtir undir það að fólk heldur sig heima og drekkur meira þar, og komi svo í bæinn og kaupi tvo bjóra en ekki fjóra,“ segir Arnar og Svanur bætir við: „Maður er hreinlega við það að panta sér landa þegar verðið og magnið eru svona.“

Arnar Hjaltested, Svanur Davíð Helgason og Breki Benediktsson.vísir/óbs

Um sé að ræða klassískt dæmi þess sem kallað er shrinkflation á ensku, sem er samsláttur orðatiltækisins „að skreppa saman“ og orðsins verðbólga. Lýsir þróunin sér þannig að fyrirtæki grípa til þess ráðs í verðbólguástandi að minnka pakkningar og magn í stað þess að hækka verð. Félagarnir hafa samt sem áður skilning á hlið rekstraraðila.

„Það er lítið hægt að gera í þessu, menn verða spara einhvern veginn. En buddan tæmist töluvert hraðar á djamminu,“ segir Arnar.

„Kútaverðið hefur ekki hækkað svona mikið held ég,“ segir Breki.

„Að minnka skammtinn í leiðinni virkar bara eins og svindl.“ 
Nýju bjórglös Víkings brugghúss, 400 millilítra. Það er af sem áður var.vísir/óbs

Bjórinn á börum miðbæjar Reykjavíkur hefur á sama tíma hækkað í verði og heyrir nú til undantekninga ef bjórinn fæst á mikið lægra verði en 1500 krónur. Til eru dæmi um að bjórinn hafi verið seldur á 2000 krónur, og það á tilboði

Betri stærð?

Þær Helga og Hanna segjast hafa skilning á gremju unga fólksins vegna minnkunar glasanna. Helga segir sömu þróun hafa átt sér stað í Finnlandi við síðustu áramót, þar sem hún bjó. „Þannig að þetta er svolítið endurtekið efni fyrir mig. En þetta var mikið hitamál í Finnlandi líka.“

Helga Hilmisdóttir og Hanna María Kristindsóttir, fengu sér bjór á Einstök bar.vísir

Hanna María viðurkennir að hún væri reiðari yfir minnkun bjórglasa, væri hún tvítug. „En þegar maður fer svona einstaka sinnum og fær sér bjór, er maður ekkert mikið að æsa sig yfir þessu. Í raun finnst mér þessi stærð (0,4) mun betri. Hálfur lítri verður oft leiðinlegur eftir smá tíma.“

„En þetta er mjög lúmskt, maður myndi vilja meira gegnsæi.“

Þær Lovísa og Birta Karen, sem fengu sér bjór á Petersen svítunni segja nauðsynlegt að lækka áfengisskattinn, sem var hækkaður um níu prósent um áramótin. 

Lovísa Ólafsdóttir og Birta Karen Tryggvadóttir, sem báðar nema hagfræði.vísir/óbs

„Þetta er verðbólga í dulargervi. Það er kannski ekki verið að svindla á manni, en það hefði alveg mátt lækka verðið samhliða minnkun.“

Birta Karen segir að lækkun áfengisskatts væri besta leiðin út úr umræddri þróun. 

„Þetta er auðveldur skattur til að hækka örlítið og tekjur ríkisins hækka heilmikið á móti.“

Stór bjór er sums staðar stór bjór 

Þá lá ferð blaðamanns á Dönsku krána, þar sem bjórinn er enn seldur í hálfslítra glasi. 

Þeir Guðmundur Ingólfsson og Skúli Jóhannsson koma gjarnan á Dönsku krána til að fara yfir stóru málin og dreypa á bjór.vísir/óbs

„Hér er eiginlega alltaf sama verðið, og hér er sólin, svona stundum,“ segir Guðmundur sem sat fyrir utan barinn í Ingólfsstræti í mestu makindum ásamt félaga sínum Skúla. Þeim finnst verðið ekki of hátt á bjórnum þar á bæ. 

„Það var varnarsigur að hann hafi bara hækkað um fimmtíu kall um daginn og kostar nú 1500 krónur,“ segir Guðmundur og Skúli bætir við:

„Hér förum við eftir þessu slagorði, í formi starfrófskvers: X, Ý, Z, Þ, Æ, Ö. Tveir fyrir einn milli fjögur og sjö.“

Ákveðin blekking í gangi

„Ég er viss um að það séu mjög margir sem hugsa ekkert út í þetta,“ segir Inga sem sat ásamt manni sínum Þórði inni á barnum. 

„Það er ákveðin blekking í gangi þar sem mér er ekki beint sagt að ég sé núna að kaupa minni bjór fyrir sama pening.“

Þórður Þórðarsson og Inga Sigurðardóttir.vísir/óbs

Í byrjun þessa árs sektaði Neytendastofa einmitt fimmtán veitingastaði í mathöllum landsins fyrir ófullnægjandi verðmerkingar auk þess sem magnstærðir drykkja vantaði á matseðil. 

„Ég áttaði mig hreinlega ekki á þessu,“ segir Þórður aðspurður um mismunandi stærð bjóra á öldurhúsum miðborgarinnar.

„En ég get vel trúað því að fólk haldi tryggð við þennan stað út af þessu.“

Á dönsku kránni er stór bjór enn stór bjór. Fastagestir segja það meðal ástæðna þess að þeir vilja hvergi annars staðar vera.vísir/óbs

Tengdar fréttir

Bjór á tilboði á tvö þúsund krónur

Íbúum Hlíðahverfis brá í brún við að sjá nýjan verðlista hverfisbarsins. Nú kostar bjórinn þar hvorki meira né minna en tvö þúsund og fimmhundruð krónur. Tvö þúsund á tilboði frá klukkan fimm til níu, þá er sælustund (e. happy hour).

Costco opnar á sölu áfengis til einstaklinga

Verslunarrisinn Costco er kominn í samkeppni við Vínbúðina og netverslanir í sölu á áfengi á netinu. Einstaklingar geta nú pantað áfengi á vefsíðu Costco og sótt í verslunina í Kauptúni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×