Skoðun

Bandarískir ferðamenn slá met

Magnús Sigurbjörnsson skrifar

Icelandair sagði frá því á dögunum að sætanýting í flugi til og frá Norður-Ameríku hafi aldrei verið betri í júní. Það stemmir vel en Bandaríkjamenn eyddu 14,14 milljörðum króna á Íslandi í júní samkvæmt tölum frá Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV). Bandaríski dollarinn hefur svo sannarlega tekið við sér á síðustu árum og hefur verið hagstætt fyrir Bandaríkjamenn að ferðast til Íslands - og svo er líka stutt flug.

Í heildina eyddu erlendir ferðamenn 36 milljörðum króna á landinu í júní. Það er aukning um 26% á milli ára. Hlutur Bandaríkjamanna er tæplega 40% af eyðslu erlendra ferðamanna. Mestu er varið í gistiþjónustu af ýmsum toga en bílaleigur og veitingaþjónusta eru ekki langt undan. Við Íslendingar eyddum 94,2 milljörðum króna í mánuðinum og þar af 23 milljörðum króna í stórmarkaði og dagvöruverslanir. Til að setja þetta í samhengi, þá eyddu bandarískir ferðamenn á Íslandi í júní 2023:

  • Meira en við Íslendingar eyddum í bensín, viðgerðir og viðhald bíla í mánuðinum (11,1 ma.kr.)
  • Meira en við Íslendingar höfum eytt í lækna- og tannlæknaþjónustu það sem af er árinu (12,1 ma.kr.)
  • Meira en við Íslendingar eyddum í veitingastaði, menningu- og afþreyingu í mánuðinum (11,8 ma.kr.)
  • Meira en knattspyrnuliðið Liverpool borgaði fyrir nýjan miðjumann, Dominik Szoboszlai (10,2 ma.kr.)
  • Um 8% af söluverði Kerecis sem var selt á dögunum til Coloplast í Danmörku (175 ma.kr.)

Það má því segja að erlendir ferðamenn séu mikilvægur þáttur í íslenskri verslun og þjónustu. Í heildarveltu landsins í júni eru þeir 28% af heild. Bandarískir ferðamenn hafa ekki síðan Rannsóknasetur verslunarinnar (RSV) hóf mælingar eytt jafn miklu í einum mánuði svo það er met. Það kæmi ekki á óvart ef metið yrði slegið í júlí og ágúst líka.

Höfundur er forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV). RSV tekur saman upplýsingar um kortaveltu á Íslandi og hægt er að nálgast nánara niðurbrot á www.rsv.is . Allar tölur eru á breytilegu verðlagi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×