Handbolti

Rut á von á barni og verður ekki með á HM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rut Arnfjörð Jónsdóttir skoraði fimm mörk í liði KA/Þórs.
Rut Arnfjörð Jónsdóttir skoraði fimm mörk í liði KA/Þórs. Vísir/Hulda Margrét

Rut Arnfjörð Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, verður ekki með liðinu á HM í Danmörku, Noregi og Svíþjóð sem fram fer í nóvember og desember.

Rut greindi frá því á Instagram-síðu sinni í dag að hún ætti von á barni með sambýlismanni sínum, handboltamanninum Ólafi Gústafssyni, í nóvember.

Þetta er annað barn þeirra hjúa, en fyrir eiga þau fimm ára gamlan son.

Íslenska kvennalandsliðið þarf því að reiða sig af án Rutar þegar heimsmeistaramótið hefst í nóvember á þessu ári og ljóst að lið KA/Þórs þarf einnig að finna út úr því hvernig sé best að fylla í hennar skarð.

Alls á Rut að baki 115 leiki fyrir íslenska A-landsliðið í handbolta. Hún var hluti af liðinu á EM 2010 og 2012, sem og HM 2011, en það eru einu stórmótin sem liðið hefur tekið þátt í til þessa. Þetta verður því í fyrsta sinn sem íslenska kvennalandsliðið verður án Rutar á stórmóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×