Viðskipti innlent

Al­þingi taki hausinn úr sandinum í á­fengis­málum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir Alþingi verða að hætta að stinga höfðinu í sandinn þegar kemur að þróuninni á áfengismarkaði. Taka þurfi áfengislöggjöfina algjörlega í gegn þar sem hún hindri samkeppnishæfi innlendra fyrirtækja. 

Miklar umbyltingar hafa verið á áfengismarkaði síðustu daga eftir að Costco tilkynnti að verslunin hefði opnað netverslun fyrir áfengi. Það fyrirkomulag er ekki nýtt en í fyrsta sinn er stór verslunarkeðja að bjóða upp á það.

Í kjölfar tilkynningar Costco hafa bæði framkvæmdastjórar Hagkaups og Samkaups rætt í fjölmiðlum að þeirra verslanir muni að öllum líkindum einnig hefja sölu áfengis í netverslunum á næstunni.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að félagið hafi ekki fengið það staðfest að heimilt sé fyrir innlend fyrirtæki að reka netverslun með áfengi.

„Það er alveg klárt að fólk má panta sér áfengi frá fyrirtækjum í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og fá það sent heim til sín. Það er eitthvað galið út frá bara skynsemi eins og jafnræðissjónarmiðum ef fólk má ekki versla við innlenda aðila með sama hætti,“ segir Ólafur.

Hann segir að ekki dugi að laga einn og einn hluta áfengislöggjafarinnar heldur þurfi að endurskoða hana í heild sinni.

„Við höfum leyft okkur að spyrja, ætlar Alþingi að halda áfram að loka augunum fyrir þróuninni og hún verður bara einhvern veginn eða vill Alþingi taka löggjöfina til heildar endurskoðunar og reyna að hafa einhver áhrif á þróunina? Setja einhvern skynsamlegan ramma?“ segir Ólafur. „Alþingi getur ekki stungið höfðinu í sandinn og látið eins og það sé ekkert að gerast á þessum markaði.“

Hann segir að haldi þróunin áfram óáreitt séu rekstarforsendur ÁTVR brostnar. Þá séu boð og bönn ekki líkleg til vinsælda.

„Við horfum bara á tímann frá því ég var unglingur, Þá hefur áfengisneysla á mann á íslandi stóraukist. Á sama tíma hefur unglingadrykkja minnkað. Við eigum að einbeita okkur að því að takmarka misnotkun á áfengi en ekki takmarka notkunina eins og virðist hafa verið markmiðið,“ segir Ólafur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×