Neytendur

Hagkaup bætist í hóp verslana sem selja áfengi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hagkaup stefnir að opnun netverslunar á næstu misserum.
Hagkaup stefnir að opnun netverslunar á næstu misserum. Vísir/Vilhelm

Hagkaup stefnir að því að hefja netverslun áfengis á næstu misserum. Verslunin mun þá bætast í hóp með Costco, Heimkaupum og fjölda smærri netverslana. Dómsmálaráðherra segist ekki getað dregið aðra ályktun en að vefverslun með áfengi sé lögmæt.

Í gær bættist verslunarrisinn Costco í samkeppni við Vínbúðina og netverslanir í sölu á áfengi á netinu. Einstaklingar með Costco-kort geta nú pantað áfengi á vefsíðu Costco og sótt samdægurs í verslunina í Kauptúni. Síðasta sumar hófu Heimkaup netsölu áfengis fyrst stórmarkaða. 

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, segir fyrirtækið undirbúa vefverslun áfengis.Aðsent

Sig­urður Reyn­alds­son, fram­kvæmda­stjóri Hag­kaupa, sagði í viðtali við Mbl í dag það ekki ólík­legt að áfeng­is­versl­un opni í net­versl­un Hag­kaupa á kom­andi miss­er­um og að verslunin sé farin að undirbúa útfærslu á slíkri vefverslun.

Hagkaup er nú þegar með vef­versl­un fyr­ir snyrti­vör­ur, leik­föng, sér­vör­ur og veisluþjón­usta. Verslunin er því með vett­vang fyrir reksturinn.

Í viðtalinu sagði hann einnig að Hagkaup hafi ákveðið að vera ekki fremst í flokki í vefverslun áfengis en það væri orðið ljóst að versl­an­irn­ar fái að opna og starf­rækja vefverslunina án inn­gripa frá yf­ir­völd­um. Þess vegna teldi fyrirtækið óhætt að hefja undirbúning á sölunni.

Vefverslun áfengis sé lögmæt

Fráfarandi dómsmálaráðherra segir það ljóst að vefverslun með áfengi sé lögmæt. Sjálfur lagði hann fram frumvarp um vefverslun áfengis í desember en það hafi strandað á Vinstri grænum og Framsóknarflokknum. Hann fagnar innkomu einkaframtaksins.

„Ég get ekki dregið aðra álykt­un en þá að vef­versl­un með áfengi sé lög­mæt,“ sagði Jón Gunnarsson í viðtali við Mbl í tilefni af því að Costco opnaði vefverslun með áfengi.

Jón Gunnarsson fagnar innkomu einkaaðila á áfengissölumarkaði.Vísir/Vilhelm

Hann sagði að hérlendis hefðu verið margar vefverslanir um nokk­urra ára skeið og þær hafi gengið vel. Um sjálfsagða þróun í takt við almenna verslunarhætti væri að ræða.

Í raun mega íslensk fyrirtæki ekki selja áfengi samkvæmt lögum. Fyrirtæki hafa smeygt sér fram hjá lagabókstafnum með því að nota birgja eða milliliði sem eru skráðir erlendis. Þannig virka lögin í raun ekki sem skyldi.


Tengdar fréttir

Costco opnar á sölu áfengis til einstaklinga

Verslunarrisinn Costco er kominn í samkeppni við Vínbúðina og netverslanir í sölu á áfengi á netinu. Einstaklingar geta nú pantað áfengi á vefsíðu Costco og sótt í verslunina í Kauptúni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×