Körfubolti

Níu særðir eftir skot­á­rás í titil­fögnuði stuðnings­manna Den­ver Nug­gets

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Níu eru særðir eftir skotárás í titilfögnuði stuðningsmanna Denver Nuggets.
Níu eru særðir eftir skotárás í titilfögnuði stuðningsmanna Denver Nuggets. Max Paro/Getty Images

Níu eru særðir eftir að maður hóf skotárás í Denver, stuttu frá Ball Arena þar sem Denver Nuggets tryggði sér sinn fyrsta NBA-titil í sögunni, í morgun.

Margir af stuðningsmönnum Denver Nuggets höfðu safnast saman tæpum tveimur kílómetrum frá Ball Arena, heimavelli Denver Nuggets, til að fagna titlinum. 

Árásin átti sér stað í kringum klukkan hálf eitt eftir miðnætti að staðartíma, um það bil þremur og hálfri klukkustund eftir að sigur Denver Nuggets var í höfn. Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Eins og áður segir særðust níu í árásinni, þar af þrír lífshættulega. Árásarmaðurinn var einn þeirra sex sem særðust og eru ekki taldir í lífshættu.

„Hvað það var sem leiddi til þess að skotum var hleypt af er eitthvað sem er enn til rannsóknar,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Denver eftir árásina.

„Árásin átti sér stað á því svæði þar sem flestir stuðningsmenn höfðu safnast saman til að fagna titlinum.“

Hann segir þó að aðeins lítill hluti fólksins sem tók þátt í fagnaðarlátunum hafi verið á svæðinu þegar árásin átti sér stað, enda hafi fækkað í hópnum eftir því sem leið á kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×