„Ég fjallaði í viðtalinu almennt um samskipti þessara tveggja embætta, Seðlabankans og ríkissáttasemjara, en ekki í tveggja manna tal eins og haldið hefur verið fram,“ er haft eftir Ásgeiri Jónssyni Seðlabankastjóra á mbl.is.
Í viðtali í Morgunblaðinu í gærmorgun greindi Ásgeir frá því að ríkissáttasemjari, sem þá var Aðalsteinn Leifsson, hafi hringt í Seðlabankann til að hafa áhrif á aðgerðir hans þegar kjaraviðræður stóðu sem hæst.
Ábyrgð vinnumarkaðarins í efnahagsástandinu var meðal umræðuefna í viðtalinu. Ásgeir segir að hann hefði vonað að verkalýðshreyfingin „myndi átta sig á því að það að elta verðbólguna í launahækkunum myndi leiða til vaxtahækkana.“
Ásgeir hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir ummæli sín og sagður hafa brotið trúnað við Aðalstein. Aðalsteinn sjálfur hefur vísað orðum Ásgeirs til föðurhúsanna.
„Úr því að seðlabankastjóri velur að vísa í tveggja manna tal okkar á milli, þá get ég upplýst að ég tók sérstaklega fram að ég virti sjálfstæði Seðlabankans og að ég væri ekki að reyna hafa áhrif á ákvarðanir hans. Hins vegar hef ég minnt seðlabankastjóra á það opinberlega að það sé mjög mikilvægt að hann tali af virðingu um og við aðila vinnumarkaðarins og mér sýnist ekki vera nein vanþörf á þeirri áminningu,“ sagði Aðalsteinn í gær.
Upplýsingagjöf í óþökk Seðlabankastjóra
Í samtali við Morgunblaðið segir Ásgeir að Aðalsteinn hafi sjálfur greint frá því að embætti þeirra tveggja hafi átt í samskiptum þegar kjaradeila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins stóð sem hæst. Það hafi verið í óþökk Ásgeirs.
„Það hefur áður komið fram í fjölmiðlum, og fyrrverandi ríkissáttasemjari hefur upplýst um það sjálfur opinberlega, að samskipti hafi átt sér stað á milli þessara tveggja embætta. Sú upplýsingagjöf var algerlega í óþökk minni enda var Seðlabankinn gerður að blóraböggli fyrir því að slitnað hefði upp úr viðræðum á þessum tíma,“ er haft eftir honum.