Handbolti

Meistararnir djamm(m)óðir: „Dagarnir eftir á voru ekki síður krefjandi en úrslitakeppnin“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjamenn fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum vel og innilega.
Eyjamenn fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum vel og innilega. vísir/vilhelm

Rúnar Kárason segir að fögnuðurinn eftir að ÍBV varð Íslandsmeistari í handbolta hafi tekið sinn toll. Hann var valinn bestur og mikilvægastur á lokahófi HSÍ í gær.

Rúnar var í aðalhlutverki hjá ÍBV sem varð Íslandsmeistari í þriðja sinn eftir sigur á Haukum í oddaleik um titilinn í Eyjum. Hann var valinn besti leikmaður úrslitanna og var svo valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar á lokahófi HSÍ auk þess sem hann fékk Valdimarsbikarinn sem er veittur þeim leikmanni sem þjálfarar liðanna í deildinni velja mikilvægastan.

„Það er alltaf gaman að fá viðurkenningar. Við í ÍBV erum búnir að leggja hart að okkur, ég líka og það er gaman að fá smá súkkulaðikurl út í kakóið eftir gott tímabil,“ sagði Rúnar í samtali við Vísi eftir lokahófið í gær.

Hann segir að Eyjamenn hafi fagnað Íslandsmeistaratitlinum vel og innilega og rúmlega það. 

„Dagarnir eftir á voru ekki síður krefjandi en úrslitakeppnin. Það fór mikil orka í það og það var alveg svakalega gott að eiga rólegan sunnudag og sofa vel og lengi. Það er búið að vera fínt að lenda rólega í þessari viku eftir mjög strembna síðustu viku,“ sagði Rúnar.

Rúnar Kárason og Elín Klara Þorkelsdóttir voru valin best í Olís-deildunum á lokahófi HSÍ.hsí

Rúnar er á förum frá ÍBV til Fram en segist ekki hafa getað kvatt Eyjamenn á betri hátt en hann gerði.

„Þetta er eins og handrit að einhverri bíómynd sem manni dreymir um. Það rættist allt og ótrúlega gaman að við skildum ná að landa þessu. Sem íþróttamaður dreymir maður alltaf um að standa sig vel á ögurstundu og það gekk rosa vel,“ sagði Rúnar. 

„Ég er kannski ekki enn búinn að fatta hvað þetta var súrrealískt en tímarnir í kjölfarið hafa verið ótrúlega skemmtilegir og ég er ótrúlega þakklátur við skulum hafa náð að fagna þessu vel og innilega með fólkinu okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×