Handbolti

Ásgeir Örn: Við höfðum ekki kraftana, höfðum ekki klókindin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ásgeir Örn á hliðarlínunni í kvöld.
Ásgeir Örn á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Vilhelm

Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka var svekktur eftir tap liðsins gegn ÍBV í oddaleik í kvöld. Haukar lentu í öðru sæti í tveimur stærstu keppnum tímabilsins en Ásgeir Örn tók við liðinu í nóvember.

„Það voru nokkur lykil- og afgerandi augnablik í leiknum. Við náum ekki að skora, hann ver vel eða við töpum boltanum þegar við erum alveg að fara að ná þessu augnabliki. Við höfðum ekki kraftana, höfðum ekki klókindi til að klára þetta og svo var þetta svolítið mótlæti,“ sagði Ásgeir í viðtali við Andra Má Eggertsson eftir leik í kvöld. Hann er þarna mögulega að vísa í dómgæsluna því Erlingur Richardsson notaði orðið mótlæti eins og frægt er orðið eftir þriðja leik liðanna þar sem Eyjamenn voru afar ósáttir við dómara leiksins.

Haukar lentu 2-0 undir í einvíginu en unnu síðan tvo leiki í röð og tryggðu sér oddaleik í kvöld.

„Mér fannst margt rosa fínt í þessum tveimur fyrstu leikjum. Við vorum svolítið vankaðir eftir Aftureldingarleikina og þess vegna var þetta svona dofið. Ég missti aldrei trúna, mér fannst við gera margt mjög vel. Við komum okkur allavega hingað og það er ógeðslega svekkjandi að ná ekki að klára þetta.“

Ásgeir Örn tók við Haukaliðinu í nóvember þegar Rúnar Sigtryggsson hætti og tók við Leipzig í Þýskalandi. Undir hans stjórn enduðu Haukar í áttunda sæti Olís-deildarinnar en fóru bæði í bikarúrslit og úrslit deildarinnar. Hvernig metur hann tímabilið?

„Við unnum ekki neitt, við erum í þessu til að vinna.“

Hann sagðist lítið vera farinn að hugsa um næsta tímabil.

„Það verða einhverjar breytingar, það er alveg klárt. Það er eitthvað farið í gang með nýja leikmenn en ég hef ekkert verið að hugsa um það. Allur tíminn og orkan hefur farið í þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×