Fredericia á í dag mikilvægan oddaleik fyrir höndum gegn stjörnuprýddu liði Álaborgar í undanúrslitum efstu deildar Danmerkur. Sigur í dag kemur Fredericia í úrslitaeinvígið.
Liðið hefur náð eftirtektarverðum árangri undir stjórn Guðmundar og sjálfur er íslenski þjálfarinn himinlifandi með stöðuna, bæði hjá sér persónulega sem og Fredericia.
„Ég er með þriggja ára samning hérna og er mjög ánægður hjá Fredericia,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi aðspurður um samningstöðu sína og framtíðarhorfur með Fredericia. „Mér líður vel hér í Danmörku og er hjá frábæru félagi. Allt í kringum þetta er eins og best verður á kosið. Ég var sannfærður um það, þegar að ég hafði kynnt mér aðstæður og skrifaði undir samning við félagið, að þetta væri rétti staðurinn fyrir mig.“
Það sem hafi heillað hann einna mest við starfið hjá Frederica væri tækifæri á uppbyggingu.
„Ég elska að byggja upp lið og sá tækifæri til þess hér. Okkur fjölskyldunni líður mjög vel hér í Danmörku og hefur verið tekið einstaklega vel.“
Finnur fyrir þakklæti
Saga danska handboltans og Guðmundar er samofin en hann var á sínum tíma landsliðsþjálfari danska karlalandsliðsins og náði sögulegum árangri með liðinu, árangri sem hefur ekki gleymst.

„Maður finnur enn, sama hvar maður drepur niður fæti, þakklæti frá dönsku þjóðinni fyrir Ólympíugullið sem ég vann með danska landsliðinu árið 2016 og því er það er einstaklega gaman fyrir mig að koma til baka og að hafa sett mark mitt á þetta lið Fredericia.“
Vakti risann
Segja má að Fredericia sé tveimur árum á undan áætlun því forráðamenn félagsins höfðu sett sér það markmið að liðið, sem varð á sínum tíma danskur meistari fimm tímabil í röð, færi aftur að berjast um titla árið 2025.
Liðið er nú komið í oddaleik í undanúrslitum og náð eftirtektarverðum árangri og segir Guðmundur að í þessum árangri felist einnig ákveðið svar frá honum.
„Þetta er ákveðið svar frá mér, varðandi ýmislegt sem maður hefur lent í. Þess vegna er þetta einstaklega skemmtilegt fyrir mig, að vera með þetta lið sem hefur staðið sig frábærlega.“
En hvað felur framtíðin í skauti sér?
„Ég á tvö ár eftir af mínum samningi eftir þetta tímabil og hlakka til þess tíma með liðinu,“ segir Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Fredericia, í samtali við Vísi.