Handbolti

Sunna fyrr heim frá Sviss vegna vanefnda á samningi

Sindri Sverrisson skrifar
Sunna Guðrún (til vinstri) er komin heim frá Sviss.
Sunna Guðrún (til vinstri) er komin heim frá Sviss. Vísir/Hulda Margrét

Markvörðurinn Sunna Guðrún Pétursdóttir hefur ákveðið að snúa heim til Íslands og rifta samningi sínum við svissneska félagið Amicitia Zürich, vegna vanefnda félagsins.

Frá þessu greinir Sunna í samtali við handbolta.is: „Ég var á tveggja ára samningi en ákvað að rifta honum þar sem það var ekki alveg staðið við hann,“ sagði Sunna.

Sunna er 25 ára gömul og fór til Zürich frá KA/Þór í fyrra eftir að hafa varið mark liðsins í tvö tímabil, og meðal annars unnið alla titla sem í boði voru tímabilið 2020-21. Hún sneri aftur til Íslands í gær og segist í samtali við handbolta.is hafa fengið góða vinnu hjá verkfræðistofunni Verkís. Óljóst er hvað tekur við hjá henni hvað handboltann snertir:

„Fókusinn núna hjá mér er bara aðeins að slaka á eftir þetta ævintýri. Ég mun klárlega sakna þess að spila með liðinu,“ sagði Sunna sem var með íslenskan liðsfélaga í Hörpu Rut Jónsdóttur hjá Amicitia Zürich.

Sunna hafði einnig áður spilað í Sviss, með liði Zug tímabilið 2019-20, en dvölin varð skemmri en ella vegna kórónuveirufaraldursins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×