Formúla 1

Furðar sig á keppi­nautunum á for­dæma­lausum tímum

Aron Guðmundsson skrifar
Red Bull Racing hefur borið höfuð og herðar yfir samkeppnisaðila sína í Formúlu 1 á yfirstandandi tímabili
Red Bull Racing hefur borið höfuð og herðar yfir samkeppnisaðila sína í Formúlu 1 á yfirstandandi tímabili Visir/Getty

Red Bull Ra­cing hefur unnið fyrstu fimm keppnir tíma­bilsins á yfir­standandi For­múlu 1 tíma­bilinu, þar að auki vann liðið sprett­keppnina sem haldin var í Azer­baíjan og hafa öku­menn liðsins endað í fyrsta og öðru sæti í fjórum keppnis­helgum af fimm.

Þetta fær Christian Horn­er, liðs­stjóra Red Bull Ra­cing, til þess að hugsa með sér hvað keppi­nautar liðsins í Ferrari og Mercedes hafi verið að gera milli tíma­bila.

Red Bull Ra­cing er ekki ó­vant árangri í For­múlu 1. Sebastian Vet­tel átti magnaða sigur­göngu með liðinu hér fyrir nokkrum árum síðan og nú hefur Hollendingurinn Max Ver­stappen tekið við keflinu.

„Við höfum aldrei upp­lifað svona byrjun á tíma­bili,“ sagði Horn­er í við­tali við Sky Sports. „Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvað hin liðin séu eigin­lega að gera.“

Red Bull Ra­cing hafi tekið hefð­bundin skref fram á við milli tíma­bila.

„Því er þetta eigin­lega meiri spurning um það hvert Ferrari og Mercedes hafi farið.“

Horn­er segir þó alltaf pláss fyrir bætingar. Red Bull Ra­cing þurfi að halda sér við efnið þrátt fyrir að byrjunin á tíma­bilinu sjái til þess að liðið teljist ansi lík­legt til að hampa báðum heims­meistara­titlunum sem í boði eru í lok tíma­bils.

Eftir fyrstu fimm keppnis­helgar tíma­bilsins í For­múlu 1 situr Red Bull Ra­cing með 122 stiga for­skot á Aston Martin á toppi stiga­keppni bíla­smiða.

Þá er öku­maður liðsins, Max Ver­stappen, sem einnig er heims­meistari síðustu tveggja tíma­bila á toppi stiga­keppni öku­manna með 119 stig. Næst á eftir honum kemur liðs­fé­lagi hans hjá Red Bull Ra­cing, Sergio Perez með 105.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×