Handbolti

Segir að Guðmundur fái þá til að trúa því að þeir geti unnið alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson er að gera flotta hluti í danska boltanum.
Guðmundur Guðmundsson er að gera flotta hluti í danska boltanum. Getty/Slavko Midzor

Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Fredericia stigu stórt skref í átt að undanúrslitum um danska meistaratitilinn með því að ná jafntefli á móti GOG.

Thorsten Fries var frábær í marki Fredericia í leiknum og hann talaði vel um þjálfara sinn Guðmund Guðmundsson.

Guðmundur hefur gert frábæra hluti með Fredericia eftir að hann kom heim af heimsmeistaramótinu með íslenska landsliðinu.

„Við trúum alltaf að við getum unnið. Guðmundur trúir því meira en nokkur annar í heiminum og það smitar út frá sér,“ sagði Thorsten Fries í viðtali við Fredericia Dagblad.

„Þegar við komumst í úrslitakeppnina og mættum á fyrstu æfingu þá vorum við allir ánægðir með okkur. En þá sagði Guðmundur bara: Nú ætlum við okkur í undanúrslitin,“ sagði Fries og glotti.

„Hann er sannfærður um að við getum unnið alla leiki. Sama hverjum við mætum og þó að það sé Barcelona,“ sagði Fries.

Aðeins ein umferð er eftir í riðlakeppni úrslitakeppninnar. Fredericia nægir þar stig á útivelli á móti Skanderborg til að tryggja sig í undanúrslitin.

„Það er klikkað við séum búnir að ná í sjö stig út úr fimm leikjum. Það voru ekki margir sem töldu að við værum eitt af sterkustu liðunum í riðlinum. Það sem við höfum gert í þessari úrslitakeppni er ótrúlega fallegt. Þetta er síðan í okkar höndum í lokaleiknum,“ sagði Fries.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×