Handbolti

Díana: Erum í þessu til að skapa ævintýri

Andri Már Eggertsson skrifar
Díana Guðjónsdóttir var ánægð með sigurinn í dag.
Díana Guðjónsdóttir var ánægð með sigurinn í dag. Vísir/Hulda Margrét

„Við byrjuðum að prófa þetta á móti Fram og okkur fannst þetta helvíti skemmtilegt og ákváðum að gera þetta aftur núna,“ sagði Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka eftir að liðið vann sigur á ÍBV í undanúrslitum Olís-deildar kvenna eftir framlengdan leik.

„Ég vill vera lengur í húsinu með þessa frábæru áhorfendur, þetta er geggjaður stuðningur. Við viljum gera þetta skemmtilegt enda á úrslitakeppnin að vera þannig,“ bætti Díana við en oddaleikur liðanna fer fram í Vestmannaeyjum á þriðjudag.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi og að lokum þurfti að framlengja þar sem Haukar voru mun sterkara liðið og unnu að lokum 29-26 sigur.

„Þetta var stál í stál og enn og aftur erum við að fara með allt of mikið af færum sem er erfitt í svona rimmu. Ég er búinn að segja þetta áður, þetta eru geggjaðar handboltastelpur sem ég er með og við verðum betri og betri með hverjum leiknum.“

„Þetta snýst svolítið um spennustig hjá mínum leikmönnum í þessu unga liði. Við settum upp leikplan og það gekk eftir í dag.“

Sigurður Bragason þjálfari ÍBV kvartaði undan leikjafyrirkomulagi úrslitakeppninnar eftir leik þrjú. ÍBV þurfti að bíða í fjórar vikur eftir fyrsta leik úrslitakeppninnar og léku síðan þrjá leiki á fimm dögum.

„Ég spila á fleiri leikmönnum heldur en hann gerir og það setur strik í reikninginn þegar er spilað þétt. Ég spilaði á ég veit ekki hvað mörgum leikmönnum í fyrri hálfleik og ég held að það skipti svolítið máli í restina,“ sagði Díana en Haukaliðið var mun orkumeira í framlengingunni.

Eins og áður segir er oddaleikur liðanna á dagskrá í Eyjum á þriðjudag og má búast við spennuleik.

„Það verður geggjað. Ég er búin að segja þetta áður, ég elska Vestmannaeyjar, mér finnst æðislegt að koma þangað og það er alltaf vel tekið á móti okkur. Mér finnst þetta frábært fólk og það var geggjuð stemmning í síðasta leik. Þetta er til fyrirmyndar og við erum í þessu til að hafa gaman og skapa ævintýri. Það er enn eitt ævintýrið að fara til Vestmannaeyjar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×