Handbolti

Lengsta lands­liðs­þjálfara­leitin síðan langa sumarið hans Bog­dans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hætti með íslenska landsliðið 21. febrúar síðastliðinn.
Guðmundur Guðmundsson hætti með íslenska landsliðið 21. febrúar síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta er enn án þjálfara. Það eru liðnir meira en sjötíu dagar síðan að í ljós kom að Guðmundur Guðmundsson yrði ekki áfram með liðið.

Íslenska landsliðið er reyndar búið að spila fjóra landsleiki og tryggja sig inn á Evrópumótið í millitíðinni en það gerði það undir stjórn þeirra Gunnars Magnússonar og Ágústs Þórs Jóhannssonar sem tóku við liðinu tímabundið.

Eftir stendur að Handknattleiksambandið er enn að leita að næsta framtíðarþjálfara íslenska landsliðsins.

Það er reyndar sterkur orðrómur um að sá útvaldi sé Snorri Steinn Guðjónsson en það hefur ekki verið staðfest af þeim sem ráða.

Það er vitað að viðkomandi þjálfari mun taka við gríðarlega spennandi liði sem hefur allt til alls til að gera góða hluti á næstu árum. HSÍ vill halda leit sinni á bak við tjöldin en á þessum tíma hafa menn verið að hlera að viðræður við nokkra aðila, innlenda sem erlenda, hafa verið í gangi.

Fréttirnir hafa hins vegar meira snúist um það hvaða erlendir þjálfarar hafa gefið starfið frá sér auk þess að Dagur Sigurðsson þótti vinnubrögð sambandsins ekki boðleg og sagðist ekki getað unnið með þeim mönnum sem stýra HSÍ-skútunni í dag.

Smám saman hefur því fækkað á óskalistanum og því stendur eftir nafn Snorra Steins Guðjónssonar með stórum stöfum.

Þetta er þegar orðin lengsta bið eftir nýjum landsliðsþjálfara í fjóra áratugi eða síðan að það tók heilt sumar að ganga frá ráðningu Bogdan Kowalczyk sumarið 1983.

Reyndar má deila um hvort ráðning Bogdans hafi í raun aðeins tekið nokkra daga eða allt sumarið því stjórnin sagði fjölmiðlum frá viðræðum sínum við Bogdan um leið og það kom í ljós að Hilmar Björnsson yrði ekki áfram. Það er því hægt að segja að þetta sé lengsta landsliðsþjálfaraleitin.

Opinberlega kom það í ljós að Hilmar yrði ekki með liðið um leið og viðræður hófust við Bogdan í lok apríl 1983 og í júlímánuði sama ár fjölluðu fjölmiðlar að aðeins formsatriði stæðu í vegi fyrir að Bogdan tæki við.

Bogdan þurfti að ganga frá sínum málum í Póllandi áður en hann gat endanlega tekið við íslenska liðinu en það var þó öllum ljóst að Bogdan yrði þjálfari liðsins. Hann átti síðan eftir að stýra íslenska liðinu í næstum því sjö ár með frábærum árangri.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir lengstu bið eftir ráðningu landsliðsþjálfara það er frá því að það var tilkynnt að forverinn sé formlega hættur þar til að ráðning nýs þjálfara er staðfest.

  • Lengsta bið eftir ráðningu landsliðsþjálfara frá 1990:
  • 73 dagar Ráðning eftirmanns Guðmundar Guðmundssonar 2023
  • 70 dagar Ráðning Bogdan Kowalczyk 1983
  • 69 dagar Ráðning Geirs Sveinssonar 2016
  • 49 dagar Ráðning Hilmars Björnssonar 1980
  • 32 dagar Ráðning Guðmundar Guðmundssonar 2008
  • 24 dagar Ráðning Alfreðs Gíslason 2006
  • 20 dagar Ráðning Guðmundar Guðmundssonar 2018
  • 14 dagar Ráðning Þorbergs Aðalsteinssonar 1990
  • 14 dagar Ráðning Arons Kristjánssonar 2012

Tengdar fréttir

Langbesti landsliðsþjálfari sögunnar

Guðmundur Guðmundsson hætti í fyrradag sem þjálfari íslenska karlalandsliðsins þrátt fyrir að eiga eitt ár eftir af samningi sínum. Óvæntur endir á mögnuðum ferli hans sem landsliðsþjálfara Íslands.

Bogdan heiðursgestur í Víkinni í kvöld

Bogdan Kowalczyk, mjög sigursæll þjálfari handboltaliðs Víkinga á áttunda og níunda áratugnum verður sérstakur heiðursgestur Víkinga í Víkinni í kvöld.

Bogdan: Ég vil hjálpa Íslandi

Bogdan Kowalczyk, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, segir í samtali við Vísi að hann vilji hjálpa íslenska landsliðinu að komast aftur á beinu brautina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×