Leikjavísir

Horizon Forbidden West: Burning Shores - Hin fínasta viðbót við góðan leik

Samúel Karl Ólason skrifar
Aloy hefur engu gleymt.
Aloy hefur engu gleymt. Sony

Horizon Forbidden West er einhver fallegasti leikur samtímans og Burning Shores, nýr aukapakki leiksins, skemmir þar ekki fyrir. Aloy þarf núna að elta einn af hinum ódauðlegu Zeniths til rústa Los Angeles og bjarga þar heiminum, í bili, enn eina ferðina.

Horizon leikirnir gerast í söguheimi þar sem mannkynið var þurrkað út af vélmennum og gervigreind.

Í stuttu máli sagt, þá leiddu miklar tækniframfarir til þess að óstöðvandi hernaðargervigreind eyddi öllu lífi á jörðinni. Faro-plágan, eins og hún var kölluð, notaði lífræn efni til að búa til fleiri vélmenni gegn mönnum og má því segja að menn, dýr og plöntur hafi verið bókstafleg fæða plágunnar.

Gáfaðasta fólk heimsins náði þó að tryggja að lífið myndi snúa aftur til jarðarinnar.

Flug skiptir enn miklu máli og er skemmtilegt.Sony

Frumbyggjar framtíðarinnar eiga þó erfitt þar sem vélmennarisaeðlur og vondir drullusokkar herja reglulega á þá. Þetta hljómar fáránlega við fyrstu sín en óhætt er að segja að það borgi sig að kafa í sögu Aloy, hetju leikjanna.

Sjá einnig: Í meistaraflokki opinna heima

Eftir að hafa bjargað heiminum nokkrum sinnum þarf Aloy að gera það enn einu sinni og ferðast til nýs svæðis á meginlandi Bandaríkjanna.

Aloy fær fregnir af því að vondur maður úr fortíðinni hafi flúið frá lokabardaga Forbidden West og eltir hún hann til að koma í veg fyrir að hann valdi frekari usla.

Þá mætir hún til Los Angeles borgar í Kaliforníu.

Los Angeles er nokkuð stórt kort í leiknum, um þriðjungur af korti Forbidden West, en þó það sé rosalega flott, þá er mun minna um að vera þar. Annar galli á aukapakkanum er að saga hans er heldur stutt, þó hún sé í takt við Frozen North, aukapakka fyrsta leiksins í seríunni um framtíðar-tæknifrumbyggjan Aloy.

Los Angeles lítur ekkert allt of vel út í söguheimi Horizon.Sony

Lítið hægt að kvarta

Fyrir utan það að hinar brennandi strendur geta verið svolítið tómlegar, þá hef ég yfir nánast engu að kvarta. Bardagakerfið er enn frábært og Aloy rekst á nokkra nýja óvini í þessum leik. Þar á meðal einn sem er mjög svo stór.

Aloy finnur líka nýja vini, suma betri en aðra.

Svo ég taki það samt aftur fram, þá er þessi leikur fáránlega fallegur og það er merkilega skemmtilegt að leika sér með myndatökukerfi leiksins.

Ný vélmenni líta dagsins ljós. Þau eru óþolandi.Sony

Bardagakerfið er sömuleiðis enn mjög skemmtilegt. Maður þarf að finna veikleika vélmenna og nýta sér þá til að rústa þeim með fjölbreyttum vopnum leiksins. Ég hef samt einhvern veginn aldrei náð að venja mig á að nota önnur vopn en boga. 

Ég hef náð að sníða mína Aloy mjög vel að því að granda vélmennum með bogum, en það er auðvitað hægt að gera hlutina öðruvísi. Til dæmis með því að gera Aloy betri í því að berja vélmenni með priki og rústa þeim þannig eða kasta sprengjum í þau. Það er allt hægt í þessum heimi.

Aloy kynnist nýju fólki í Burning Shores. Eins og svo oft áður eru þau flest drullusokkar.Sony

Samantekt-ish

Það helsta sem segja má um Burning Shores er að hann virkaði sem skyldi þegar hann kom út. Þó þetta sé bara aukapakki, þá er það ekki sjálfgefið þessa dagana að leikir séu fullkláraðir þegar þeir eru gefnir út.

Annars er vandræðalega lítið um aukapakkann að segja sem ekki hefur verið sagt áður. Forbidden West er þrusuleikur og Burning Shores er hinn fínasti aukapakki, þó hann gæti verið meira seðjandi.

Hann virkar og það vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×