Skoðun

Máttur góð­vildar í eigin garð

Ingrid Kuhlman skrifar

Góðvild í eigin garð er hugtak innan jákvæðrar sálfræði sem vísar til þess að koma fram við sjálfan sig af mildi og hlýju, sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum eða erfiðleikum. Að sögn Kristin Neff, sem er leiðandi fræðimaður og höfundur bóka um góðvild í eigin garð, felur hún í sér þrjá meginþætti:

  1. Sjálfsvinsemd: Að vera styðjandi og skilningsríkur gagnvart sjálfum sér frekar en að dæma eða gagnrýna sig. Sjálfsvinsemd þýðir að við viðurkennum að enginn er fullkominn og að öll gerum við mistök.
  2. Sammannleg reynsla: Að skilja að allir ganga í gegnum erfiðleika í lífinu og að við séum ekki ein í baráttunni. Að viðurkenna að þjáning er sammannleg reynsla getur hjálpað okkur við að finna fyrir meiri tengingu við aðra.
  3. Núvitund: Að vera til staðar og meðvitaður um tilfinningar sínar án þess að verða of gagntekinn af þeim. Núvitund gerir okkur kleift að fylgjast með hugsunum okkar og tilfinningum af forvitni án þess að leggja mat á eða dæma þær.

Kostir þess að sýna sjálfum sér mildi, umhyggju og skilning

Góðvild í eigin garð stuðlar að betri andlegri heilsu, vellíðan og persónulegum vexti. Rannsóknir hafa sýnt að góðvild í eigin garð dregur úr einkennum kvíða, þunglyndis og streitu. Þegar við komum vel fram við okkur sjálf eigum við auðveldara með að stjórna erfiðum tilfinningum og þróa heilbrigðari aðferðir til að takast á við þær. Einstaklingar sem koma fram við sig af mildi og umhyggju hafa auk þess tilhneigingu til að sýna seiglu þegar þeir standa frammi fyrir áskorunum. Seiglan gerir þeim kleift að ná sér hraðar eftir mistök eða erfiðleika og takast betur á við hæðir og lægðir lífsins. Að sýna sjálfum sér góðvild ýtir einnig undir jákvæðar tilfinningar eins og hamingju, þakklæti og ánægju en þær vega upp á móti neikvæðum tilfinningum og stuðla að aukinni vellíðan. Góðvild í eigin garð snýst um að samþykkja sjálfan sig eins og maður er með öllum sínum göllum og takmörkunum. Þetta getur leitt til betra sjálfsmats og jákvæðari sjálfsmyndar. Einstaklingar sem sýna sjálfum sér góðvild eru líklegri til að vera styðjandi og skilningsríkir í samskiptum sínum við aðra. Þeir eru líka betur í stakk búnir til að takast á við ágreining og aðrar áskoranir í mannlegum samskiptum. Samkennd í eigin garð hvetur okkur til að læra af mistökum og þroskast. Hún stuðlar að vaxtarhugarfari og hjálpar til við að draga úr sjálfsgagnrýni og neikvæðu sjálfstali.

Unsplash

Erfitt að sýna sjálfum sér góðvild

Þó að góðvild í eigin garð sé öflugt tæki til að auka vellíðan sem og almenn lífsgæði eigum við oft erfitt með að vera skilningsrík í eigin garð. Mörg okkar hafa gagnrýna innri rödd sem segir okkur að við séum ekki nógu góð eða að við eigum ekki skilið að fá skilning og samkennd. Fullkomnunarárátta getur einnig haft áhrif en þegar við setjum markið óeðlilega hátt getur okkur fundist eins og við eigum ekki skilið skilning og góðvild þegar við náum ekki settum markmiðum. Afleiðingarnar eru að við berjum okkur niður. Auk þess er mikil áhersla á árangur og sjálfstæði í okkar samfélagi og þá getur samkennd í eigin garð verið túlkuð sem merki um veikleika eða eftirlátssemi.

Dæmi um velvild í eigin garð

Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um hvernig er hægt að sýna góðvild í eigin garð.

  • Talaðu við sjálfan þig á sama blíða og styðjandi hátt og þú myndir gera við vin sem gengur í gegnum erfiða tíma, t.d. með því að segja við sjálfan þig: „Ég gerði mitt besta, það hlýtur að nægja. Ég geri bara betur næst.“
  • Ímyndaðu þér að þú skrifir sjálfum þér bréf eins og þú myndir skrifa góðum vini sem stendur andspænis erfiðleikum. Reyndu að sýna sömu umhyggju og skilning.
  • Gefðu sjálfum þér faðmlag þegar þú finnur fyrir neikvæðum tilfinningum eða ert er að reyna að takast á við erfiðleika. Með því getur þú róað taugakerfið og dregið úr kvíða og streitu.
  • Viðurkenndu að allir geri mistök og nýttu þau sem tækifæri til að vaxa og þroskast.
  • Leyfðu þér að finna og tjá tilfinningar þínar frekar en að dæma þig fyrir þær.
  • Æfðu núvitund til að öðlast aukinn skilning á sjálfum þér og taka sjálfan þig í sátt.
  • Gerðu raunhæfar væntingar til sjálfs þín og viðurkenndu að það er í lagi að biðja um hjálp þegar þú þarft á henni að halda.
  • Taktu þér tíma fyrir það sem veita þér gleði, eins og að fara í heitt bað, hlusta á góða tónlist eða fara í hressandi göngutúr.
  • Æfðu fyrirgefningu, bæði í eigin garð og annarra, til að sleppa takinu af sársauka og líta fram á veginn með meiri samkennd og skilningi.

Að læra að sýna sjálfum sér góðvild tekur tíma og æfingu. Mundu að góðvildí í eigin garð snýst ekki um að vera eftirlátssamur eða eigingjarn, heldur um að veita okkur sömu gæsku og umhyggju og við myndum veita góðum vin.

Höfundur er leiðbeinandi og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði (MAPP) frá Buckinghamshire New University.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×