Körfubolti

Allt undir í Hvera­gerði

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr einum af leik liðanna.
Úr einum af leik liðanna. Skallagrímur Körfubolti

Hamar og Skallagrímur mætast í oddaleik um sæti í Subway deild karla í körfubolta á næstu leiktíð. Spennan er gríðarleg fyrir leik kvöldsins en rimma liðanna hefur verið hreint út sagt mögnuð.

Þó úrslitakeppnir Subway deildar karla og kvenna steli fyrirsögnunum þessa dagana þá hefur úrslitakeppni 1. deildarinnar verið hreint út sagt stórbrotin. Stjarnan komst á dögunum upp í Subway deild kvenna eftir sigur á Þór Akureyri í oddaleik. Úrslitaeinvígið í 1. deild karla fór sömu leið en í kvöld tekur Hamar frá Hveragerði á móti Skallagrími í oddaleik um sæti í Subway deild karla á næstu leiktíð.

Um er að ræða tvö bæjarfélög með mikla sögu þegar kemur að körfubolta. Það er því svo sannarlega allt undir í kvöld. Það væri grátlegt fyrir Hamar að komast ekki upp um deild eftir að enda í 2. sæti með jafn mörg stig og Álftanes sem sigraði 1. deildina í ár.

Skallagrímur endaði í 4. sæti með 14 stigum minna en Hamar. Það er hins vegar ekki spurt að því þegar úrslitakeppnin hefst. Það þarf nefnilega að toppa á réttum tíma til að ná árangri í körfubolta.

Einvígi Hamars og Skallagríms hefur verið stórskemmtilegt en eftir jafna fyrstu tvo leiki hefur munurinn verið töluvert meiri í síðustu tveimur leikjum. Skallagrímur tryggði sér oddaleik með 12 stiga sigri á heimavelli – í leik sem rataði í fjölmiðla vegna athæfi stuðningsfólks Skallagríms – aðeins nokkum dögum eftir að Hamar hafði unnið 20 stiga sigur í Hveragerði.

Ef marka má leiki liðanna til þessa virðist sem Hamar hafi ákveðið andlegt forskot þar sem liðið hefur unnið báða heimaleiki sína í rimmunni. Hvort það dugi í kvöld verður svo einfaldlega að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×