Handbolti

Boris Bjarni Akbachev fallinn frá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Boris við kennslu hjá íþróttafræðinemendum við Háskólann í Reykjavík árið 2015.
Boris við kennslu hjá íþróttafræðinemendum við Háskólann í Reykjavík árið 2015. Háskólinn í Reykjavík

Boris Bjarni Akbachev, goðsögn í handboltaþjálfun á Íslandi, er látinn 89 ára gamall. Boris kom að þjálfun margra af bestu handboltamönnum Íslandssögunnar. Stuðningsmönnum Vals var tilkynnt um andlátið í kvöld og fjölmargir lærisveinar hans í gegnum árin minnast hans á samfélagsmiðlum.

Boris kom fyrst til Íslands frá Sovétríkjunum árið 1980 til að þjálfa hjá Val í um tvö ár. Þá tók hann við Valsliði sem var þekkt sem Mulningsvélin en lykilmenn voru komnir á aldur. Á þeim tíma tók hann unga og efnilega handboltamenn inn í Valsliðið sem áttu eftir að spila lykilhlutverk í landsliði Íslands síðar meir. Leikmenn eins og Valdimar Grímsson, Jakob Sigurðsson, Júlíus Jónason og Geir Sveinsson.

Boris Bjarni kom aftur til Íslands árið 1989 og þá var dvöl hans öllu lengri, eða allt til dagsins í dag. Hann þjálfaði hjá Val og varð svo aðstoðarmaður Þorbjörns Jenssonar með íslenska landsliðið. Með þá félaga í brúnni náði karlalandsliðið fimmta sæti á HM í Kumamoto 1997.

Boris hefur búið til frábæra leikmenn, bæði hér á landi og í Rússlandi. Leikmenn á borð við Dag Sigurðsson og Ólafur Stefánsson fóru í gegnum skóla Borisar Bjarna og fleiri Valsarar síðar meir auk efnilegra leikmanna hjá félögum á borð við Breiðablik, ÍBV og Hauka.

Hann þótti í sérflokki í tækni- og einstaklingsþjálfun. Lét hann hafa eftir sér að stærsta vandamálið á Íslandi á sínum tíma að allir leikmenn væru þjálfaðir eins. Leikmaður sem væri lítill og aumur þyrfti ekki samskonar þjálfun og sá sem væri stór og sterkur. Hann skoðaði leikmenn með tilliti til veikleika þeirra og styrkleika og vann með leikmönnum í þeim þáttum.

Boris Bjarni var sæmdur gullmerki Vals og silfurmerki Handknattleikssambands Íslands fyrir framlag sitt til handbolta hér á landi. Boris Bjarni lætur eftir sig eiginkonu og tvö uppkomin börn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×