Handbolti

Geðþóttaákvörðun IHF gæti skilað Íslandi á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland veitti Ungverjalandi ágæta keppni í umspili um sæti á HM og gæti enn mögulega komist á mótið.
Ísland veitti Ungverjalandi ágæta keppni í umspili um sæti á HM og gæti enn mögulega komist á mótið. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta á enn möguleika á að komast á HM í desember, þrátt fyrir tapið gegn Ungverjalandi í umspili um sæti á mótinu.

Handknattleikssamband Íslands hefur ákveðið að sækja um það að fá annað af tveimur boðssætum sem IHF, alþjóða handknattleikssambandið, heldur lausum þar til í sumar. Þetta kemur fram í grein RÚV í dag.

Alls taka 32 lið þátt á HM og fer mótið fram í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Það hefst 29. nóvember og stendur yfir til 17. desember.

IHF heldur tveimur sætum opnum og úthlutar þeim eftir eigin geðþótta, og þannig fengu til að mynda Slóvakía og Pólland boðssæti á síðasta heimsmeistaramóti, árið 2021.

Karlalandslið Íslands fékk sams konar boðsæti á heimsmeistaramótinu í Katar í janúar 2015, eftir að hafa mistekist að vinna sig inn á mótið.

Í grein RÚV er bent á að Ísland hafi verið einna næst því að komast inn á HM af Evrópuþjóðunum sem ekki náðu því, og að bestu landslið heims komi flest frá Evrópu. Þá muni HSÍ geta nýtt sér það hve margir Íslendingar fylgdu íslenska karlalandsliðinu á HM í Svíþjóð í janúar, og benda á að mótsstaðurinn í desember henti Íslendingum vel.

Búast má við ákvörðun IHF í júní eða júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×