Íslenski boltinn

Besta spáin 2023: Stutt stopp hjá FH

FH er nýliði í deildinni eftir að hafa farið ósigrað í gegnum 1.deildina. Munurinn á deildunum er hins vegar mikill og því þarf allt að ganga upp hjá Hafnarfjarðarliðinu svo ekki fari illa.

Jón Már Ferro skrifar
FH-ingar fagna sigri í Lengjudeildinni á síðasta tímabili. fh

FH er nýliði í deildinni eftir að hafa farið ósigrað í gegnum 1.deildina. Munurinn á deildunum er hins vegar mikill og því þarf allt að ganga upp hjá Hafnarfjarðarliðinu svo ekki fari illa.

Venju samkvæmt spáir íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports fyrir um gengi liðanna í Bestu deild kvenna fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst þann 25. apríl með þremur leikjum. Fyrstu umferðinni lýkur svo 26. apríl með tveimur leikjum.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir því að nýliðar FH lendi í 10. sæti Bestu deildar kvenna í sumar og leiki í Lengjudeildinni sumarið 2024.

  • Ár í deildinni: Nýliði
  • Besti árangur: Fjórum sinnum Íslandsmeistari (Síðast 1976)
  • Best í bikar: Undanúrslit 2011 og 2021
  • Sæti í fyrra: 1. sæti í B-deild
  • Þjálfari: Guðni Eiríksson og Hlynur Eiríksson
  • Markahæst í fyrra: Telma Hjaltalín Þrastardóttir, 10 mörk

FH-ingar hafa sýnt lítinn stöðugleika undanfarin ár og farið á milli efstu og næst efstu deildar með reglulegu millibili. Liðið komst upp úr Lengjudeildinni í fyrra eftir að hafa verið þar í tvö ár.

FH tapaði ekki leik í deildinni í fyrra og endaði í efsta sæti með 42 stig eftir að hafa gert jafntefli við Tindastól í hreinum úrslitaleik um titilinn í lokaumferðinni.

FH mætir Þrótti í 1. umferð Bestu deildarinnar.fh

Síðast þegar FH var í efstu deild árið 2020 endaði liðið með sextán stig, vann fimm leiki, gerði eitt jafntefli en tapaði tíu leikjum. Þjálfarar liðsins, bræðurnir Guðni og Hlynur Eiríkssynir, vilja eflaust bæta sigurhlutfall liðsins en til þess þurfa þeir að ná því allra besta úr liðinu. 

Guðni tók við stjórnartaumunum árið 2018. Fyrir það var hann aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna og þjálfari 2.flokks. Bæði hann og Hlynur þekkja hvern krók og kima í Kaplakrika. Hlynur hefur þjálfað yngri flokka félagsins undanfarin ár.

Liðið og lykilmenn

Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnnum en FH er enn þá að leita að rétta varnarmanninum til að liðið smelli saman. Án þess gæti liðið verið brothætt aftarlega á vellinum. 

FH-liðið er orkumikið og vill verjast ofarlega á vellinum. Það er meðal annars tilkomið vegna samsetningar hópsins en mun fleiri sóknarsinnaðir leikmenn eru í hópnum en varnarsinnaðir.

grafík/bjarki

Leikmannahópur FH er breiður en reynslulítill í efstu deild og mikið mun mæða á hinum 23 ára bandaríska framherja, Mackenzie George. Hún samdi við FH til eins árs á dögunum en miklu máli skiptir að hún skori að minnsta kosti 10 mörk.

Sísí Lára Garðarsdóttir er hætt en það er stórt skarð fyrir skildi. Sísí var algjört akkeri á miðjum vellinum. Brotthvarf hennar gæti reynst dýrt, sérstaklega í ljósi þess að hópurinn er reynslulítill.

Komnar:

  • Birna Krist­ín Björns­dótt­ir frá Breiðabliki (á láni)
  • Berglind Þrastardóttir frá Haukum
  • Erla Sól Vig­fús­dótt­ir frá Hauk­um
  • Mackenzie George frá Bandaríkjunum
  • Sara Montoro frá Fjölni
  • Hildigunn­ur Ýr Bene­dikts­dótt­ir frá Stjörn­unni
  • Aldís Guðlaugsdóttir frá Val

Farnar:

  • Erna Guðrún Steinsen Magnúsdóttir í Víking
  • Eydís Arna Hallgrímsdóttir í Fram (á láni)
  • Katrín Ásta Eyþórsdóttir í Fram (á láni)
  • Kristin Schnurr
  • Selma Dögg Björgvinsdóttir í Víking
  • Sigríður Lára Garðarsdóttir hætt

Varnarmaðurinn Halla Helgdóttir meiddist illa í vetur og fór í aðgerð fyrir áramót og átti að vera orðin góð núna en aðgerðin misheppnaðist og ekki er vitað um stöðuna á henni en hún mun að öllum líkindum spila lítið í sumar.

Maggý Lárentínusdóttir er ófrísk og verður ekki með á komandi tímabili. Í fyrra voru Selma Dögg Björgvinsdóttir og Erna Guðrún Steinsen Magnúsdóttir ekki með vegna óléttu og fóru í Víking Reykjavík í vetur.

Margrét Sif Magnúsdóttir er hætt í fótbolta og markahæsti leikmaðurinn frá því í fyrra, Thelma Hjaltalín Þrastardóttir, er ólétt og verður ekki með.

Hinar nítján ára gömlu Sara Montoro og Erla Sól Vigfúsdóttir komu í vetur. Sara er sóknarmaður og kom frá Fjölni. Erla er varnarsinnaður miðjumaður og varnarmaður og kom frá Haukum. Hin tvítuga Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir kom frá Stjörnunni en hún er sóknarmaður.

Varnarmaðurinn Birna Kristín Björnsdóttir kom á láni frá Breiðblik í vetur. Mikið mun mæða á henni í stöðu vinstri bakvarðar.

Lykilmenn FH

  • Aldís Guðlaugsdóttir, 19 ára markmaður
  • Mackenzie George, 23 ára sóknarmaður
  • Shaina Faiena Ashouri, 27 ára miðjumaður

Fylgist með

Elísa Lana Sigurjónsdóttir og Hildigunnur Ýr eru líklegar til þess að springa út í sumar. Þær hafa báðar verið unglingalandsliðsmenn og eru gríðarlega góðar með boltann.

FH lék síðast í efstu deild 2021.fh

Í besta/versta falli

Í besta falli tekst FH-ingum að komast í efri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt en í versta falli fellur liðið.






×