Handbolti

Ýmir Örn og fé­lagar í Löwen bikar­meistarar eftir víta­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rhein-Neckar Löwen er þýskur bikarmeistari.
Rhein-Neckar Löwen er þýskur bikarmeistari. Marco Wolf/Getty Images

Rhein-Neckar Löwen er þýskur bikarmeistari í handbolta eftir ævintýranlegan sigur á Magdeburg í úrslitum. Leikurinn fór alla leið í vítakeppni, að henni lokinni stóðu Ýmir Örn Gíslason og félagar í Löwen uppi sem sigurvegarar, lokatölur 36-34.

Úrslitaleikirnir gerast ekki mikið betri. Rhein-Neckar Löwen byrjaði betur og leiddi með þremur mörkum í hálfleik. Magdeburg kom til baka í síðari hálfleik og staðan var jöfn 27-27 að loknum venjulegum leiktíma.

Í framlengingunni komust Ljónin frá Löwen þremur mörkum yfir en aftur kom Magdeburg til baka og jafnaði metin, staðan 31-31 þegar flautan gall og því þurfti að grípa til vítakeppni. Þar skoruðu allir leikmenn beggja liða nema Gísli Þorgeir Kristjánsson og því gat Albin Lagergren tryggt Löwen titilinn með marki í næsta í vítakasti, sem hann og gerði. Ýmir Örn og félagar eru því þýskir bikarmeistarar árið 2023.

Ýmir Örn skoraði eitt mark í liði Löwen en tók ekki vítakast. Gísli Þorgeir var frábær í leiknum og stór ástæða þess að Magdeburg komst alla leið í vítakeppnina. Hann skoraði fimm mörk og gaf fimm stoðsendingar.

Leikurinn um bronsið fór einnig fram í dag. Þar vann Flensburg fimm marka sigur á Lemgo, lokatölur 28-23. Teitur Örn Einarsson átti mjög góðan leik í liði Flensburg, hann skoraði fimm mörk og gaf tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×