Handbolti

„Við sýndum karakter að koma til baka eftir erfiðar mínútur“

Andri Már Eggertsson skrifar
Arnar Pétursson á hliðarlínunni í leik dagsins
Arnar Pétursson á hliðarlínunni í leik dagsins Vísir/Hulda Margrét

Arnar Pétursson, þjálfari Íslands, var svekktur eftir fjögurra marka tap gegn Ungverjum á heimavelli í umspili um laust sæti á HM 2023. 

„Það var ekki mikið sem kom okkur á óvart. Þegar maður sest niður eftir klukkutíma sér maður betur hvað það var í upphafi seinni hálfleiks sem gerðist sóknarlega. Við klikkuðum á dauðafærum og tveimur vítum sem var dýrt gegn svona góðu liði. Við vorum með full marga tapaða bolta sem þær refsuðu fyrir og þá komu gæðin í ljós,“ sagði Arnar Pétursson eftir leik.

Ungverjaland var fjórum mörkum yfir í hálfleik en byrjaði seinni hálfleik illa og Arnar hefði viljað nýta það betur.

„Við hefðum átt að halda okkur nær þeim á þeim kafla og þá hefðu lokamínúturnar þróast öðruvísi. Við sýndum karakter að koma til baka eftir erfiðar mínútur þar sem okkur tókst illa að skora. Ég var ánægður með hvernig við komum til baka og gerðum heiðarlega tilraun til að koma betur út úr þessum leik.“

Arnar var ánægður með hvernig Ísland kom til baka átta mörkum undir og munurinn fór minnst niður í tvö mörk.

„Mér fannst við sækja betur á markið. Þegar okkur gekk illa í leiknum þá vorum við ekki að sækja á markið eins og við eigum að vera að gera. Varnarlega vorum við frábærar undir lokin og heilt yfir var varnarleikurinn góður,“ sagði Arnar Pétursson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×