Skoðun

Einokunarlausir páskar 2024

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Það fylgir því sérstök blanda af undrun með vott af skelfingu að borga fyrir mat á Íslandi. Verndartollar eru hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við, sem aftur veldur því að matarkarfan hér er dýrari en annars staðar. Með verndartollum komast fyrirtæki eins og Mjólkursamsalan í einokunarstöðu þar sem innflutt mjólkur- og undanrennuduft, sem notað er í alls konar matvælaframleiðslu, verður margfalt dýrara. Til viðbótar hefur fyrirtækið sérstaka undanþágu frá almennum samkeppnisreglum; hentugleikar sem öðrum atvinnurekendum býðst reyndar ekki.

Þess vegna getur fyrirtæki eins og Arna í Bolungarvík, sem er keppinautur MS, ekki keypt mjólkur- og undanrennuduft í sína framleiðslu án þess að kaupa það af MS. Og það á hærra verði en heimsmarkaðsverð vörunnar er almennt. Þessu háa verði er svo fleytt út í verðlag sem aftur bitnar á almenningi. Þetta þarf ekki að vera svona. Það er pólitísk ákvörðun og mannanna verk að sitja sem fastast í meingölluðu kerfi.

Ástæðan var því ærin þegar fulltrúar verslunarmanna og launafólks gengu á fund fjármálaráðherra og matvælaráðherra á dögunum og fóru fram á að tollar á tilteknar afurðir yrðu felldir niður sem viðbragð við verðbólgu sem gefið hefur góða raun td á Spáni. Nægilega hefur matarkarfan hækkað í verði undanfarin misseri. Á fundinum var lagt til að tollar á alifugla, svínakjöt, franskar kartöflur auk tolla á mjólkur- og undanrennuduft og smjör yrðu afnumdir. Þá var lagt til að tollar á túlípönum og rósum yrðu felldir niður á því tímabili sem innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn - eins og um páska. Áhrifin yrðu skjótvirk og myndi þar að auki styrkja samkeppnisgrunn atvinnulífsins öllum til heilla.

Viðbrögðin voru dræm. Í nýlegri fjármálaáætlun til fimm ára er hvergi minnst á breytingar á tollum og lítið gert til að efla samkeppni hér. Frekar boðið upp á framhald samansúrraðrar íhaldsmennsku og kunnugleg stef. Viðkvæðið um að launafólk, atvinnulíf og Seðlabanki eigi saman að vinna bug á verðbólgu, en að ríkisfjármálin séu undanskilin á því ferðalagi.

En það koma páskar eftir þessa páska. Kannski verða næstu páskar upphaf þess að við lokum einokunarhringnum og kveðjum í eitt skipti fyrir öll úr sér gengna tolla sem bitna helst á fólki sem gerir sér það eitt til saka að versla í matinn. Það má alltaf halda í vonina.

Höfundur er þingmaður og formaður Viðreisnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×