Handbolti

Telur ekkert lið geta stöðvað ÍBV

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur verið frábær hjá ÍBV að undanförnu. Einar Jónsson segir að ÍBV verði óstöðvandi ef hún helst heil í gegnum úrslitakeppnina.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur verið frábær hjá ÍBV að undanförnu. Einar Jónsson segir að ÍBV verði óstöðvandi ef hún helst heil í gegnum úrslitakeppnina. Vísir/Hulda Margrét

Einar Jónsson, þjálfari Fram í Olís-deild karla og sérfræðingur Seinni bylgjunnar, var gestur í seinasta hlaðvarpsþætti Kvennakastsins þar sem nýkrýndir deildar- og bikarmeistarar ÍBV voru til umræðu.

Eyjaliðið hefur verið á ótrúlegri siglingu seinni hluta tímabilsins og unnið hvern leikinn á fætur öðrum. Þá hefur liðið einnig tryggt sér deildar- og bikarmeistaratitilinn og Einar telur að það sé ekkert lið í deildinni um þessar mundir sem geti stöðvað ÍBV á leið liðsins að Íslandsmeistaratitlinum.

„Ég held að það sé ekkert lið að fara að stöðva þær,“ sagði Einar.

„Valur er að missa markmann núna sem er mjög slæmt fyrir Val. En ef ÍBV missir segjum bara Hrafnhildi Hönnu [Þrastardóttur], eða Sunnu [Jónsdóttur] eða Birnu [Berg Haraldsdóttur] - mega kannski síst við því að missa Hrafnhildi Hönnu - það sem skortir kannski hjá ÍBV er breidd.“

„Þær eru með virkilega gott sjö manna lið Alveg mjög gott. En þær mega illa við meiðslum og það er í rauninni held ég það eina sem gæti stöðvað ÍBV,“ bætti Einar við.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan, en umræðan um ÍBV hefst eftir um það bil 37 mínútur.

Klippa: Kvennakastið: Seinni bylgju sérðfræðingar fara yfir málin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×