Handbolti

Vonbrigðamenn í Olís: Franska undrabarnið, einn sá dýrasti og sá sem átti að breyta Stjörnunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hergeir Grímsson hefur valdið mestum vonbrigðum í Olís-deild karla í vetur að mati Theodórs Inga Pálmasonar.
Hergeir Grímsson hefur valdið mestum vonbrigðum í Olís-deild karla í vetur að mati Theodórs Inga Pálmasonar. vísir/hulda margrét

Í síðasta þætti Handkastsins valdi Theodór Ingi Pálmason þá fimm leikmenn sem hafa valdið mestum vonbrigðum í Olís-deild karla í vetur. Listinn var sem hér segir.

5. Daníel Örn Griffin, Grótta

„Hann hefur lent í miklum meiðslum og ekki sýnt sitt rétta andlit í vetur og verið svolítið þungur. Hann á mikið inni. Með hann í standi væri Grótta allavega í 8. sæti eða jafnvel mun ofar.“

4. Noah Bardou, Hörður

„Þegar yfirprjónið á Ísafirði var sem mest í haust var búið að selja manni að það væri eitthvað franskt undrabarn að fara að mæta þarna. En hann gat minna en ekki neitt. Hann var víst eitthvað mjög erfiður því þeir gerðu allt til að losna við hann og það tókst á endanum. Hann er löngu farinn.“

3. Egill Magnússon, FH

„Hann hefur átt mjög erfitt uppdráttar í vetur og er á leiðinni úr Krikanum.“

2. Aron Dagur Pálsson, Valur

„Örugglega einn dýrasti leikmaður deildarinnar, maður sem er að koma úr atvinnumennsku. Hann hefur leyst ákveðnar stöður, lítil hlutverk hér og þar en heilt yfir varaskeifa. Dýr varaskeifa.“

1. Hergeir Grímsson, Stjarnan

„Leikmaður sem ég hélt að myndi koma inn í Stjörnuliðið og gerbreyta því og rífa einhvern anda í það. En í staðinn hefur hann dottið á sama stig, sama andleysi. Hann hefur ekkert verið hræðilegur en langt frá því vera eins og hann var í Selfossi.“

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×