Umfjöllun og viðtal: ÍR - Keflavík 92-85 | ÍR féll en vann síðan Keflavík

Kári Mímisson skrifar
IR_Tindastoll (26)
VÍSIR/BÁRA

ÍR vann sigur á Keflavík í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar liðin mættust í Skógarseli. ÍR er þrátt fyrir þetta fallið þar sem Höttur vann Blika fyrr í kvöld.

ÍR tók á móti Keflavík í Subway-deild karla í körfuknattleik nú í kvöld. ÍR þurfti nauðsynlega á sigri að halda og treysta á að Höttur myndi tapa sínum leik gegn Breiðablik.

ÍR byrjaði leikinn betur og tók fljótt forystu í leiknum en gestirnir úr Keflavík aldrei langt á eftir. Staðan eftir fyrsta fjórðung 22-21 fyrir heimamanna sem virtust ætla að selja sig dýrt. Áfram hélt ÍR yfirhöndinni í öðrum fjórðungi en það varð hins vegar þá sem það var ljóst að ÍR muni ekki leika í deild þeirra bestu að ári þegar úrslit voru ljós í leik Hattar og Breiðabliks. Staðan í hálfleik 47-45 fyrir heimamönnum.

Það var ekki að sjá að heimamenn væru eitthvað að pæla í því að þeir væru fallnir þegar þeir mættu aftur á gólfið í seinni hálfleik. ÍR gjörsamlega tók yfir leikinn í þriðja leikhluta og náði mest fimmtán stiga forystu.

Þrátt fyrir að Keflavík næði aðeins að brúa bilið í lokin þá var sigur heimamanna aldrei í hættu. Collin Pryor sýndi glæsileg tilþrif undir lokin þegar hann blokkaði Igor Maric snyrtilega. Lokatölur hér í Skógarselinu 92-85.

Af hverju vann ÍR?

Ætli maður verði ekki að nota gömlu góðu klisjuna og segja að ÍR hreinlega langaði meira í þetta. Það var mikið undir og ÍR ætlaði að selja sig dýrt hér í kvöld sem og þeir gerðu. Á sama tíma litu gestirnir oft ofboðslega dapurlega út hér í kvöld. Létu allt pirra sig og misstu hausinn gjörsamlega í seinni hálfleik. Ekki vænlegt svona rétt fyrir úrslitakeppnina.

Hverjir stóðu upp úr?

Hákon Örn Hjálmarsson fór mikinn í liði ÍR og skoraði 27 stig og gaf átta stoðsendingar. Taylor Maurice Johns skoraði svo sautján stig og reif niður tíu fráköst. Collin Pryor verður svo

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Keflavík í seinni hálfleik var ofboðslega dapur á köflum. Mikið af klaufalegum töpuðum boltum og vitlausum ákvörðunum einkenndu frammistöðu þeirra sóknarlega í seinni hálfleik.

Hvað gerist næst?

Keflavík fá granna sína í Njarðvík í heimsókn í lokaumferðinni sem leikin verður 30. mars klukkan 19:15. ÍR gerir sér ferð austur til að leika við Hött í leiknum sem hefði getað verið úrslitaleikur til að halda sér í deild þeirra bestu. Grátlegt að við fáum ekki þann leik.

Keflavík fer svo væntanlega að undirbúa sig undir úrslitakeppnina á meðan ÍR fer og undirbýr sig fyrir 1. deildina á næsta ári.

Hjalti Þór: Markmiðið að fara alla leið

„Þetta var hrikalegt hjá okkur. Algjört attitude leysi. Við létum þá ýta okkur út úr öllu og við vorum bara eins og litlir krakkar að kvarta og kveina yfir öllu. Við vissum alveg að ÍR-ingarnir myndu koma brjálaðir í leikinn, þeir eru að reyna að redda sér frá falli en þetta var bara skammarlegt hvernig við spiluðum þetta.“Sagði Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, um frammistöðu sinna manna í kvöld.

Þetta var fimmta tap Keflavíkur í síðustu sex leikjum. Hverju þarf liðið að breyta fyrir úrslitakeppnina?

„Við áttum fínt run á móti Hetti á Egilsstöðum. Þeir eru fínir og sérstaklega á heimavelli. Svo komum við hingað og höldum að við séum einhverjir spaðar. Við erum með lið sem getur unnið alla og það er svo sem þannig ekkert sem við þurfum að gera nema að breyta okkar viðhorfi fyrir alla leiki.“

Úrslitakeppnin fer senn að hefjast og svörin eru skýr hjá Hjalta þegar hann er spurður hvert markmiðið sé í henni.

„Að fara alla leið.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira