Körfubolti

Geof Kotila látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geof Kotila frá þeim tíma þegar hann þjálfaði Snæfell.
Geof Kotila frá þeim tíma þegar hann þjálfaði Snæfell. Vísir/Daníel

Geof Kotila, fyrrum þjálfari karlaliðs Snæfells er fallin frá, en hann hefur lengst af sínum ferli starfað í Danmörku.

Kotila var aðeins 64 ára gamall. Hann var mjög vel liðinn hér heima á Íslandi og þótti bæði frábær þjálfari og frábær manneskja.

Kotila þjálfaði Snæfellsliðið frá 2006 til 2008 og undir hans stjórn varð liðið bikarmeistari árið 2008. Snæfell komst einnig í lokaúrslitin undir hans stjórn vorið 2008.

Bikarmeistaratitilinn 2008 var fyrsti stóri titill Sæfellsliðsins í sögunni en hann vann félagið einmitt á 49 ára afmælisdegi Kotila.

Basketligaen segir frá andláti Kotila og segir að hugur allra sé hjá Karen, eiginkonu hans og dætrum þeirra sem og hjá fjölskyldum þeirra og vinum sem eru margir.

Hann fór til Danmerkur eftir tíma sinn í Stykkishólmi og tók við liði Team Fog Næstved sem hann þjálfaði til 2013.

Kotila hefur frá árinu 2017 verið framkvæmdastjóri dönsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta, Basketligaen.

Kotila hóf þjálfaraferil sinn hjá Michigan Tech háskólanum eftir að hafa spilað sjálfur með skólanum frá 1978 til 1983. Hann var aðalþjálfari Michigan Tech skólans frá 1987 til 1994. Hann fór þaðan til Danmerkur og tók við liðiHorsens IC. Kotila gerði á sínum tíma bæði Horsens og Skovbakken Bears að dönskum meisturum.

Kotila og Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, unnu lengi saman við körfuboltaþjálfun og enskukennslu hjá Efterskolen í borginni Nyborg í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×