Skoðun

Fyrir hverja er í boði að mennta sig?

Alexandra Ýr van Erven skrifar

Menntasjóður námsmanna er okkar mikilvægasta verkfæri til þess að stuðla að félagslegum hreyfanleika. Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að hann sé eitt af okkar miklvægustu jöfnunartólum. Menntasjóðurinn á að vera stuðningsnetið sem kemur stúdentum í gegnum háskólanám, stuðningsnet sem gerir þeim kleift að leggja stund á nám sitt og gefa að því loknu til baka til samfélagsins með nýtingu þeirrar reynslu og þekkingar sem aflað var í náminu. Þetta stuðningsnet er lykilforsenda þess að háskólanám sé aðgengilegt og hægt sé að ná fram jafnrétti allra til náms.

Við vitum þó vel að stuðningsnetið okkar er löngu brostið. Framfærslulánin duga ekki til að standa straum af framfærslukostnaði, skólagjaldalán duga ekki fyrir öllum námsleiðum, vextir á námslánum hafa aldrei verið hærri, kerfið er ósveigjanlegt og stirt og svo mætti lengi telja.

Því er ekki að furða að fjöldi lántaka hjá Menntasjóðnum hafi hríðfallið, en á síðustu 10 árum hefur lántökum fækkað um helming. Þegar nýtnin á stuðningsnetinu er orðin svona lítil þurfa stjórnvöld að fara að spyrja sig spurninga. Ekki einungis um það hvernig er hægt að búa betur um stúdenta heldur hvernig við getum tryggt betra aðgengi að háskólanámi. Eða á það ekki að vera í boði fyrir okkur öll að mennta sig?

Ljóst er að vankantar námslánakerfisins hindra aðgengi að háskólanámi. Samkvæmt nýútgefinni skýrslu frá OECD hefur 41,9% ungs fólks á aldrinum 25-34 ára aflað sér háskólamenntunar á Íslandi, samanborið við 49% í Danmörku, 49,2% í Svíþjóð og 55% í Noregi. Samanburðurinn er sláandi og skýtur skökku við þá ímynd sem mörg okkar hafa af íslensku samfélagi. Í ljósi þess að töluvert færri ungmenni hafa menntað sig á Íslandi en á Norðurlöndum ættu stjórnvöld að leggja kapp á að greiða leiðina að háskólanámi.

Hvernig náum við markmiði laganna?

Í lögum um Menntasjóð námsmanna er kveðið á um að framfærslulán nægi hverjum nemanda til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi. Sú er þó ekki raunin og er það ein helsta ástæða þess að 71% háskólanema á Íslandi vinna með námi og er hlutfallið með því hæsta sem gerist í Evrópu. Þar af fullyrða 72% þeirra nema sem vinna með námi að án vinnunnar gætu þau ekki verið í námi.

Vinnan er þó fljót að koma í bakið á stúdentum en frítekjumark námslána skerðir framfærslulánin og leiðir til þess að stúdentar þurfa að vinna enn meira með námi til þess að ná endum saman. Þetta er sannkallaður vítahringur.

Þessi tilneydda atvinnuþátttaka er ennfremur illskiljanleg í ljósi þess að lög um Menntasjóð námsmanna áttu að skapa hvata fyrir nemendur að ljúka námi á tilsettum tíma með því að veita 30% niðurfellingu á höfuðstól námslána að námi loknu. Vegna lágrar framfærslu þurfa stúdentar þó að vinna með námi og eiga 25% stúdenta í erfiðleikum með að sinna náminu vegna mikillar vinnu. Því er ljóst að markmiðum sjóðsins verður ekki náð nema lántakar eigi kost á fullnægjandi framfærslu.

Sjóðurinn þarf ekki að vera sjálfbær

Einn afdrifaríkasti galli námslánakerfisins er þó sá að stjórnvöld hafa dregið þá metnaðarlausu línu að sjóðurinn eigi að vera sjálfbær. Þessi hugsunarháttur lýsir skammsýni í menntamálum og ber þess ekki merki að stjórnvöld líti á háskólanám og stúdenta sem fjárfestingu fyrir samfélagið allt. Fjárfesting í námi felur í sér ábata fyrir samfélagið allt og sem sakir standa virðist vera eins og stjórnvöld hafi gleymt því, enda endurspegla fjárframlög ríkisins þessa staðreynd ekki.

Það sjónarmið stjórnvalda að sjóðurinn skuli vera sjálfbær er orsök margra vankanta. Til að mynda hamlandi ábyrgðarmannakerfis, að skólagjaldalán dugi ekki fyrir öllum námsleiðum, þess að vaxtaþakið er allt of hátt og svo framvegis og framvegis. Þættir sem eiga það sameiginlegt að hindra aðgengi að námi.

Stjórnvöld eru í dauðafæri til þess að gera breytingar, því nú fer fram endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna. Þessi endurskoðun veitir gríðarlega mikilvægt tækifæri til að gera nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi námslána hér á landi og ef stjórnvöldum er alvara um að ætla að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi verður að nýta hana til hins ítrasta.

Höfundur er forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.