Viðræður um yfirtöku svissneska bankans UBS á bankanum Credit Suisse hófust á föstudagskvöld en seðlabankinn og fjármálaeftirlitið þar í landi stóðu að viðræðunum, sem höfðu það markmið að endurvekja traust á bankakerfinu.
Boðað var til blaðamannafundar klukkan 19:30 á staðartíma í dag þar sem farið var yfir stöðu mála. Þar staðfesti Alain Berset, forseti Sviss, að UBS myndi festa kaup á keppinaut sínum.
Talið er að kaupverðið nemi yfir tveimur milljörðum bandaríkjadala eins og fram kom í Financial Times fyrr í dag. Það kaupverð er langt undir markaðsvirði bankans á föstudaginn. Þá kostaði hver hlutur í bankanum 1,86 franka en ef kaupverðið er tveir milljarðar bandaríkjadala þá er hver hlutur einungis á 0,5 franka.

Karin Keller-Sutter, fjármálaráðherra Sviss, undirstrikar mikilvægi kaupanna á blaðamannafundinum. Hún segir að ef jafn mikilvægur banki og Credit Suisse hefði fallið þá hefði það haft óbætanleg áhrif á fjármálamarkaði.