Körfubolti

Giannis sagðist hafa stolið þrennu og NBA tók hana af honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo fær ekki þrennuna skráða eftir að hafa viðurkennt að hafa reynt að stela henni.
Giannis Antetokounmpo fær ekki þrennuna skráða eftir að hafa viðurkennt að hafa reynt að stela henni. AP/Aaron Gash

Giannis Antetokounmpo fær ekki þrennuna sem hann hélt hann hefði tryggt sér í leik Milwaukee Bucks og Washington Wizards í NBA deildinni í körfubolta á sunnudagskvöldið.

NBA-deildin leiðrétti tölfræði leiksins og tók síðasta frákast leiksins af Giannis sem hann hélt að hefði tryggt honum fjórðu þrennu tímabilsins.

Giannis tók frákast níu sekúndum fyrir leikslok vitandi að honum vantaði enn eitt frákast í tíu. Hann brunaði upp völlinn, komst nálægt hringnum, hikaði aðeins, en skaut þá boltanum viljandi í hringinn áður en hann greip boltann aftur.

Tölfræðingar leiksins skráðu á hann misheppnað skot og frákast. NBA fer yfir tölfræðina í öllum leikjum og gerir lagfæringar ef við á. Síðasta frákastið var tekið af Giannis undir þeim formerkjum að leikmaður verður að vera að reyna að skjóta á körfuna til að fá skot. Ef það er ekkert skot þá getur ekki verið frákast.

Milwaukee liðið vann leikinn 117-111 og lokatölfræði Antetokounmpo frá leiknum er 23 stig, 13 stoðsendingar og 9 fráköst.

Eftir leikinn viðurkenndi Giannis að hafa klikkað viljandi á skotinu og talaði um að hafa stolið þrennuna. „Þjófurinn“ hélt henni hins vegar ekki lengi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×