Körfubolti

Neyddust til að spila í strákadeild og unnu en máttu ekki fá bikarinn

Sindri Sverrisson skrifar
Stelpurnar í Spain Park skólaliðinu unnu strákamót en máttu ekki fá sigurverðlaunin.
Stelpurnar í Spain Park skólaliðinu unnu strákamót en máttu ekki fá sigurverðlaunin. Facebook/@Jayme Mashayekh

Stúlknalið frá Hoover í Alabama í Bandaríkjunum þurfti að horfa upp á stráka taka við meistarabikar þrátt fyrir að hafa unnið þá í úrslitaleik.

Stúlkurnar eru á aldrinum 10-11 ára og spila fyrir Spain Park skólann. Þær fengu að vita að til að geta nýtt alla æfingaaðstöðu í skólanum myndu þær þurfa að skrá sig til leiks í strákadeild.

Það gerðu stelpurnar og gott betur því þær enduðu á að vinna mótið en þeim var hins vegar ekki leyft að taka við sigurverðlaununum.

Jayme Mashayekh, móðir einnar þeirra, fór yfir málið í færslu á Facebook og í kjölfarið hafa bæjaryfirvöld í Hoover brugðist við og séð til þess að stúlkurnar séu verðlaunaðar fyrir sigurinn. Móðirin fór yfir aðdraganda þess að stelpurnar spiluðu í strákadeild og skrifaði meðal annars:

„Þeim var sagt að ef þær vildu fá að spila áfram saman sem lið þyrftu þær að spila á hærra stigi og mæta strákum úr fimmta bekk. Þær voru um miðja deild í gegnum tímabilið og töpuðu nokkrum jöfnum leikjum með einu stigi.

Það að spila við strákana var áskorun sem þær stóðust. Þetta gerði þær að betri leikmönnum og betra liði. Þeim var sagt fyrir úrslitakeppnina að þær mættu spila en að ef að þær myndu vinna þá mættu þær ekki fá verðlaunagripinn.

Afsakið mig? Hvað? Hvað gerðu þær til að vera dæmdar úr leik? Gerðu þær ekki það sem þurfti? Spiluðu þær ekki á hærra stigi? Ó, er þetta af því að þær eru STELPUR?!?“

Reglum breytt á Íslandi um helgina?

Málið minnir að ákveðnu leyti á baráttu íslenskra stelpna fyrir því að fá að spila á strákamótum, eins og fjallað var um í heimildarmyndinni Hækkum rána.

Eins og Vísir hefur fjallað um verður á komandi ársþingi KKÍ, næsta laugardag, gerð þriðja tilraun til þess að koma í gegn reglubreytingum sem heimila að stelpulið spili í strákadeildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×