Handbolti

„Fáránlega mikið afrek hjá mínum mönnum“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var virkilega stoltur af sínum mönnum í kvöld.
Snorri Steinn Guðjónsson var virkilega stoltur af sínum mönnum í kvöld. vísir/Diego

Valsmenn urðu í kvöld deildarmeistarar í Olís-deildinni. Áttundi titilinn í röð í höfn hjá Val sem er ótrúlegt afrek. Varð þetta ljóst eftir 32-21 sigur liðsins á Gróttu í kvöld.

„Sannfærandi sigur og flottir í seinni. Kannski munurinn að við nýttum færin betur og fækkuðum teiknifeilunum, það var það sem var að í fyrri hálfleik. Varnarlega frábærir,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, að leik loknum um frammistöðu síns liðs.

Valur skoraði aðeins 13 mörk í fyrri hálfleik sem er óvenjulega lítið á þeim bænum. Aðspurður hvað hafi verið sagt í hálfleik sagði Snorri Steinn þetta.

„Mér fannst við vera aðeins á handbremsunni og mér fannst ekki geisla nógu mikið af okkur. Ég bað bara menn um að sleppa sér meira lausum.“

Langt er í næsta leik hjá Val, en næsti leikur er gegn Göppingen í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar þann 21. mars. Snorri Steinn segir sína menn ætla að fagna titlinum sem kom í hús í kvöld og hvílast vel fyrir næsta leik, en mikið leikjaálag hefur verið á Valsliðinu á þessu ári.

„Bara mjög fínt að fá smá pásu. Við vorum að vinna hérna risastóran titil, þannig að við komum til með að fagna honum vel. Þetta er fáránlega mikið afrek hjá mínum mönnum að vera deildarmeistari, en ég tala nú ekki um í þessu álagi sem við erum búnir að vera í. Að halda sjó á báðum stöðum er eitthvað sem ég er ógeðslega stoltur af,“ sagði Snorri Steinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×