Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - ÍR 32-30 | Selfyssingar enn í baráttunni um heimavallarétt

Hinrik Wöhler skrifar
Vilius Rasimas reyndist ÍR-ingum erfiður.
Vilius Rasimas reyndist ÍR-ingum erfiður. vísir/Diego

Selfoss vann mikilvægan tveggja marka sigur er liðið tók á móti ÍR í Olís-deild karla í handbolta í kvöld, 32-30. Sigurinn þýðir að Selfyssingar eru enn í harðri baráttu um eitt af efstu fjórum sætum deildarinnar, en ÍR-ingar færast nær falli.

Selfyssingar unnu sterkan sigur á fallbaráttuliði ÍR í Set höllinni á Selfossi í kvöld. Selfoss hefur verið á siglingu í deildinni eftir áramót og á nýju ári hefur liðið unnið fjóra af fimm leikjum sínum. Með sigrinum í kvöld er liðið komið í sjötta sæti í Olís-deildinni með jafnmörg stig og Stjarnan, Fram og Afturelding. Breiðhyltingar sitja enn í næstsíðasta sæti, þremur stigum eftir KA í tíunda sæti. ÍR á þó leik til góða á norðanmenn og getur enn allt gerst í fallbaráttunni.

Selfoss byrjaði leikinn betur og leiddi framan af fyrri hálfleik. Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var óhræddur að skipta mönnum inn á en hann var gott sem búinn að skipta út öllu byrjunarliðinu eftir fimmtán mínútna leik. Breiðhyltingar voru þó aldrei langt undan með Viktor Sigurðsson í fararbroddi, en hann var kominn með sjö mörk þegar flautað var til leikhlés. Þegar leið á fyrri hálfleikinn náðu gestirnir að jafna og var staðan 15-15 í hálfleik.

Heimamenn komu sterkari til leiks í seinni hálfleik en ÍR fékk tvær tveggja mínútna brottvísanir á stuttum kafla og náðu Selfyssingar að nýta sér yfirtöluna og komust fjórum mörkum yfir. Gestirnir gáfust þó ekki upp og náðu að koma til baka og jöfnuðu leikinn þegar tíu mínútur voru eftir. Það kviknaði á Ísaki Gústafssyni í skyttunni en hann skoraði sex mörk í síðari hálfleik og seigir Selfyssingar náðu að klára leikinn að lokum og var niðurstaðan tveggja marka sigur heimamanna, 32-30.

Af hverju vann Selfoss?

Heimamenn voru með yfirhöndina bróðurpart leiksins og sigldu þessu heim undir lokin. Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn að krafti og nýttu færin vel, sérstaklega úr hornunum og af sex metrunum. Það var helsti munurinn á liðunum tveimur þegar uppi var staðið.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá heimamönnum var Guðjón Baldur í horninu sem átti stórgóðan leik en hann skoraði átta mörk úr jafnmörgum skotum. Ísak Gústafsson endaði einnig með átta mörk, hann reis upp í seinni hálfleik og á mikilvægum tímapunkti í leiknum. Vilius Rasimus í markinu var einnig ÍR-ingum erfiður.

Viktor Sigurðsson átti stórkostlegan leik hjá gestunum, níu mörk hjá honum. Hann hélt liðinu á lofti, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði sjö mörk. Skapaði aragrúa af færum fyrir liðsfélagana og var ásamt Guðjóni besti maður vallarins.

Hvað gekk illa?

Skotnýting gestanna var ekki upp á marga fiska og köstuðu ÍR-ingar frá sér mögulegum sigri með ótímabærum skotum og slæmri nýtingu úr dauðafærum. Fengu tækifæri til að komast yfir undir lokin en náðu ekki að nýta sér það.

Hvað gerist næst?

Baráttan um að koma sér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina heldur áfram fyrir Selfyssinga en þeir eiga fjóra leiki eftir í deildinni. Selfyssingar eru á leiðinni í langt hlé en þeir mæta aftur til leiks eftir rúmar þrjár vikur þann 25. mars er þeir mæta toppliði Vals.

Það er stutt hlé fyrir Breiðhyltinga en þeir taka á móti ÍBV á þriðjudaginn. Eyjamenn koma særðir til leiks eftir tap á móti FH í gær á meðan ÍR þarf nauðsynlega að sigra til að halda voninni á lofti um að komast úr fallsæti.

Það verður ekki mikið um leiki í Olís-deild karla á næstu vikum vegna landsleikja Íslands við Tékka og úrslitahelgarinnar í Powerade-bikarnum.

Bjarni: „Þetta er með betri leikjum sem við höfum spilað í vetur“

Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR.Vísir/Hulda Margrét

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var sáttur með baráttuna hjá sínum mönnum þrátt fyrir tap.

„Ég er bara sjúklega ánægður með strákana, þetta er með betri leikjum sem við höfum spilað í vetur og bara stoltur og ánægður með þá,“ sagði Bjarni eftir leikinn á Selfossi.

Tímabilið hefur ekki verið auðvelt fyrir nýliðana en margir ljósir punktar voru í spilamennsku ÍR-inga í kvöld, þeir gáfust aldrei þrátt fyrir að vera undir bróðurpart leiksins.

„Ég tek margt jákvætt út úr þessum leik. Við vorum að vinna fullt af boltum á tímabili og vorum fljótir að saxa niður forskotið þegar þeir komust yfir. Mér fannst sóknarleikurinn mjög góður og tek margt jákvætt út úr þessu.“

Markvörður Selfyssinga, Vilius Rasimas, reyndist þó ÍR-ingum erfiður ljár í þúfu og var vel á verði í markinu.

„Það sem verður okkur að falli er færanýtingin. Markmaðurinn hjá þeim var hreint út sagt stórkostlegur og raun og veru fórum við oft illa að ráði okkar. Við vorum búnir að spila okkur frábærlega í gegn en náðum ekki að koma boltanum fram hjá honum. Við héldum þó áfram og komust aftur inn í leikinn,“ bætir Bjarni við.

ÍR er þremur stigum eftir KA en eiga leik til góða á norðanmenn. Það verður ærið verkefni fyrir Breiðhyltinga að halda sér upp í deildinni en Bjarni er brattur fyrir framhaldinu.

„Ef þetta er spilamennskan sem við erum að fara sýna núna þá erum við að fara taka fullt af stigum, það er alveg pottþétt, við erum að fara berjast.“

Guðjón Baldur: „Við vorum þéttir í dag“

Guðjón Baldur Ómarsson átti flottan leik fyrir Selfoss í kvöld.Sunnlenska.is

Guðjón Baldur Ómarsson, hægri hornamaður Selfyssinga, var frábær í kvöld. Hann skoraði átta mörk úr jafnmörgum skotum og steig ekki feilspor í leiknum.

„Við vorum þéttir í dag og heilt yfir vorum við fínir. Vorum oft að gefa þeim þetta á köflum með aulalegum sendingum og að grípa ekki boltann. Ef við tökum það í burtu þá er þetta fínn leikur,“ sagði Guðjón eftir leikinn.

Gestirnir frá Breiðholti voru oft nálægt að komast yfir en Guðjón hafði þó ekki þungar áhyggjur.

„Nei, ekki beint, mér fannst holningin á liðinu vera þannig að vorum klárir og það var ekki vandamálið. Nú er þriggja vikna frí og það er síðan Valur næst. Þannig við komum í þann leik til að ná tveimur punktum, það er ekkert annað í boði,“ sagði hornamaðurinn öflugi í lokin.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira