Handbolti

HSÍ ekki enn haft samband við neinn en þjálfaraleitin fer á fullt eftir Tékkaleikina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur B. Ólafsson er formaður  Handknattleikssambands Íslands.
Guðmundur B. Ólafsson er formaður Handknattleikssambands Íslands. vísir/egill

HSÍ flýtir sér hægt í ráðningu á næsta þjálfara karlalandsliðsins í handbolta en vill vera búið að ganga frá þeim málum í haust.

Guðmundur Guðmundsson lét af störfum sem landsliðsþjálfari í síðustu viku eftir fimm ára starf. Ákveðið hefur verið að Gunnar Magnússon og Ágúst Þór Jóhannsson stýri íslenska liðinu í leikjunum fjórum sem það á eftir í undankeppni EM 2024. Ísland mætir Tékklandi heima og að heiman í þessum mánuði og svo Ísrael úti og Eistlandi heima í apríl.

„Við erum bara að byrja að vinna í því. Ég hugsa að við setjum meiri kraft í þetta þegar Tékkaleikirnir eru búnir. Þá förum við á fullt. Við erum að greina hvaða þjálfara við þurfum og hver markmiðin okkar eru. Ég býst við að þetta fari af stað í mars-mánuði að skoða alla möguleika,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, í samtali við Vísi í dag. Hann segir að HSÍ sé ekki enn búið að hafa samband við neinn þjálfara.

En hefur HSÍ gefið sér einhvern tímaramma utan um það hvenær sambandið vill vera búið að ganga frá ráðningu nýs landsliðsþjálfara?

„Við teljum okkur hafa góðan tímaramma fram á haustið. Það eru verkefni næst í október/nóvember. Við þurfum að vera búin að klára þetta fyrir þann tíma. Við þurfum að vera komin með mann þá. Það er síðasti undirbúningurinn fyrir EM í janúar,“ svaraði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×