Um­fjöllun og við­töl: Grótta - Fram 30-31 | Endur­­koma heima­manna hófst ör­lítið of seint

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Grótta var um tíma átta mörkum undir.
Grótta var um tíma átta mörkum undir. Vísir/Diego

Í kvöld lék Grótta gegn Fram í 17. umferð Olís-deildarinnar í Hertz höllinni út á Seltjarnarnesi. Leikurinn var tvískiptur. Heimamenn voru varla með í fyrri hálfleik en sóttu vel að Frömurum í síðari hálfleik. Fram fór þó með sigur úr býtum, 30-31 lokatölur.

Gríðarlegur hraði var í leiknum í upphafi þar sem bæði lið reyndu hvað þau gátu að keyra hitt í kaf. Framarar voru þeimum betri í þeim efnum og voru búnir að skora níu mörk eftir tíu mínútna leik, staðan 5-9. Ekki skánaði það fyrir heimamenn en þeim tókst ekki að skora mark á átta mínútna kafla á meðan Fram skoraði fjögur mörk og brenndu einnig af víti á þeim kafla.

Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, tók þá leikhlé sem skilaði, því miður fyrir heimamenn, litlu. Framarar spiluðu hörku vörn og þvinguðu Gróttu í nokkra tapaða bolta og spiluðu sóknarleikinn af skynsemi. Staðan 10-18 Fram í vil og útlitið dökkt hjá Seltirningum.

Grótta náði þó frábærum kafla síðustu tvær mínútur fyrri hálfleiksins og minnkuðu muninn í fjögur mörk. Staðan 14-18 í hálfleik.

Grótta skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks en hlaut í kjölfarið tvöfalda tveggja mínútna brottvísun sem bitnaði mikið á áhlaupi hennar að forystu Fram.

Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, stillti upp í fimm einn vörn í síðari hálfleik sem tók þann góða takt sem Framarar höfðu haft í sóknarleik sínum í fyrri hálfleik. Munurinn hélst þó á bilinu 3-5 mörk lengst af í síðari hálfleik.

Þegar átta mínútur voru eftir af leiknum náði Grótta að minnka muninn í tvö mörk og Framarar orðnir örlítið stressaðir á stöðu mála. Framarar voru þó fljótir að komast aftur í fjögurra marka forystu sem heimamenn unnu svo niður í eitt mark undir lokin. Lokatölur, eins og áður segir, 30-31.

Af hverju vann Fram?

Frábær fyrri hálfleikur þar sem liðið lagði grunnin að sigrinum var helsta ástæða þess að Fram fór með tvö stig heim á leið. Einnig má nefna vel spilaðar lokamínútur hjá Fram þar sem Grótta þjarmaði vel að forystu þeirra.

Hverjir stóðu upp úr?

Marko Coric, línumaður Fram, var frábær í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði sex mörk úr jafn mörgum skotum. Honum tókst þó ekki að skora í þeim síðari, tvö skot þar í súginn.

Breki Hrafn Árnason, markvörður Fram, stóð heldur betur fyrir sínu í fjarveru Lárus Helga Ólafssonar sem var meiddur. 13 varin skot sem skiluðu 33,3 prósent vörslu hjá Breka.

Hjá Gróttu stóð Þorgeir Bjarki Davíðsson upp úr en hann skilaði fimm mörkum úr sex skotum auk þess að gefa þrjár stoðsendingar og fiska eitt víti. Þetta eru frábærar tölur þar sem hann lék í stöðu hægri skyttu lengst af í leiknum verandi hornamaður að upplagi.

Hvað gekk illa?

Leikur Gróttu heilt yfir í fyrri hálfleik var ekki góður. Mikið af töpuðum boltum auk dapurs varnarleiks sem skilaði sér í ekki mörgum vörðum boltum hjá markvörðum heimamanna.

LeikstjórnunFram í síðari hálfleik var ekki sú besta og hægt að benda á bæði þjálfara Fram og leikmenn í þeim efnum. Að liðið vinni aðeins með einu marki eftir að hafa leitt leikinn á tímabili með átta mörkum sýnir það hvað best.

Hvað gerist næst?

Fram fær Hauka í heimsókn næstkomandi fimmtudag klukkan 19:30.

Grótta mætir Val degi síðar í Origo höllinni klukkan 19:30.

Gríðarlega fúlt að spila bara handbolta í þrjátíu mínútur

Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu.Vísir/Diego

„Gríðarleg vonbrigði og svekkelsi að hafa komið okkur í þessa stöðu. Við gerðum það sem lið, ég tek ábyrgð á því og strákarnir hljóta að taka ábyrgð á því, við erum allir í þessu saman. Gríðarlega fúlt að spila bara handbolta í þrjátíu mínútur,“ sagði Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, um þá holu sem lið hans kom sér í í fyrri hálfleik.

„Þessir strákar eru frábærir í handbolta. Við bara köstum allt of mörgum boltum frá okkur í fyrri hálfleik, margir tæknifeilar, hik og við eigum bara ekki góðan leik framan af.“

Leiknum lauk aðeins með eins marks tapi fyrir Gróttu þrátt fyrir að hafa lent átta mörkum undir á tímapunkti. Róbert talaði að hreinlega hafi vantað aðeins upp á heppni fyrir sína menn til þess að fá eitthvað út úr leiknum að lokum.

„Það eru einhver klikk hér og þar og sofna einu sinni eða tvisvar í vörninni, það þarf ekki meira. Þetta er hellingur af svona hlutum og það er bara rosalega grátlegt að tapa bara með einu.“

Grótta fjarlægist sífellt drauminn um úrslitakeppnina og mætir næst núverandi og tilvonandi deildarmeisturum í Val.

„Það er alveg klárt mál að við erum ekki favourite-ar gegn Val, ég held að ég sé ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli þar. Við sjáum bara hvað við getum gert og við spiluðum hörku leik við þá hérna í byrjun árs. Eina sem ég bið um er að ég fái strákana til að berjast og spila góðan leik. Ef það er nóg til þess að vinna þá frábært, ef ekki þá spiluðum við allavegana eins vel og við gátum,“ sagði Róbert Gunnarsson að lokum.

Það voru ekki bara við sem panikkeruðum, það voru fleiri

Einar Jónsson, þjálfari Fram.Vísir/Hulda Margrét

„Við byrjuðum þetta nákvæmlega eins og við ætluðum, rosalega góður kraftur í okkur og héldum uppi háu tempói. Gerðum í raun og veru allt frábærlega í 27 mínútur. Komumst í 18-10 en þeir skora fjögur mörk bara á síðustu þrem mínútunum í fyrri hálfleik,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram eftir leik.

„Við byrjuðum fannst mér seinni hálfleikinn vel svo brjóta þeir dálítið leikinn upp og við panikkerum aðeins eins og svo sem aðrir hérna inn á vellinum. Það voru ekki bara við sem panikkeruðum, það voru fleiri.“

Aðspurður út í hvort að hann væri að tala um dómara leiksins þegar hann nefndi að fleiri væru að panikkera á vellinum aðrir en Framarar hafði Einar þetta að segja.

„Menn taka því bara eins og þeir vilja. Ég er ekki að fara tala um dómarar, ég veit alveg hvað gerist þá. Við bara panikkeruðum ásamt öðrum,“ sagði Einar sem búinn er að taka út leikbann fyrr á tímabilinu vegna ummæli um dómgæslu í viðtali eftir leik.

Einar hrósaði Gróttu fyrir það áhlaup sem kom að forystu Fram í síðari hálfleik.

„Ég hefði viljað sjá þetta aðeins meira sannfærandi. Bara hrikalega glaður með tvö stig á Nesinu og mér fannst þeir [Grótta] bara gera þetta vel, í seinni hálfleik sérstaklega. Róbert [þjálfari Gróttu] er klókur og brást við og hleypti leiknum upp. Við náðum ekki að bregðast alveg nógu vel við því.“

Einari fannst hann sjálfur ekki bregðast nægilega vel við þeim taktískubreytingum sem Róbert Gunnarsson gerði í leik síns liðs.

„Mér fannst ég slakur. Ég hafði allt of mikil læti og róteraði allt of mikið í þessu, það hefur þó bara verið okkar concept í vetur,“ sagði Einar og hélt áfram.

„Hann [Róbert Gunnarsson] skermir út vinstri vænginn og svo fara þeir í fjóra tvo hérna undir restina. Þetta var bara klókt hjá honum og við náðum ekki að bregðast nógu vel við þessu.“

Einar sló á létta strengi aðspurður út í fjarveru Lárus Helga Ólafssonar og Arnórs Mána Daðasonar.

„Þeir voru í agabanni báðir, fóru saman á eitthvað skrall og… nei ég er að djóka. Ég ætla að vona að ég fari ekki í bann fyrir þetta. Þeir eru meiddir báðir, því miður. Ég veit ekki hversu alvarlega né hvað er langt í þá. Það skýrist á næstu dögum,“ sagði Einar Jónsson léttur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira