Handbolti

Apelgren einnig spenntur fyrir íslenska landsliðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Apelgren í leik með Elverum.
Apelgren í leik með Elverum. vísir/getty

Sænski þjálfarinn Michael Apelgren er einn þeirra erlendu þjálfara sem er orðaður við starf karlalandsliðsins í handbolta. Starfið er laust eftir að Guðmundur Guðmundsson hætti í vikunni.

„Ég hafði heyrt af því að það gæti verið áhugi frá Íslandi og ég var upp með mér að heyra það,“ sagði Apelgren í samtali við Vísi.

Þetta er 38 ára gamall þjálfari sænska liðsins Sävehof sem Selfyssingurinn Tryggvi Þórisson leikur með. Hann er einnig aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins.

Hann hóf þjálfaraferil sinn sem spilandi þjálfari norska liðsins Elverum en eftir tvö ár lagði hann skóna á hilluna og einbeitti sér eingöngu að þjálfuninni. Hjá Elverum byggði hann upp stórveldi enda var Elverum norskur meistari sex ár í röð undir hans stjórn.

„Ef ég fengi símtal frá HSÍ þá myndi ég að sjálfsögðu hlusta á hvað þeir hafa að segja.“

Svíinn segir að þó svo hann sé áhugasamur sé staða hans sú að hann sé samningsbundinn Sävehof út næsta tímabil. Hann er þó með klásúlu að mega þjálfa landslið samhliða sínu starfi þar enda er hann aðstoðarþjálfari sænska landsliðsins. Þar er hann einnig samningsbundinn og því yrði að leysa einhverja hnúta ef HSÍ vildi virkilega semja við hann.

„Ég hef bara heyrt orðróma en það hefur enginn frá HSÍ haft samband við mig,“ segir Apelgren sem talar vel um íslenska liðið.

„Það eru miklir möguleikar í framtíðinni hjá íslenska landsliðinu. Liðið er með marga frábæra leikmenn og framtíðin spennandi þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×