Handbolti

Gísli Þorgeir mataði félaga sína í góðum sigri Magdeburg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir og félagar eru í góðri stöðu í Meistaradeildinni
Gísli Þorgeir og félagar eru í góðri stöðu í Meistaradeildinni Vísir/Getty

Gísli Þorgeir Kristjánsson átti fínan leik fyrir Magdeburg sem lagði Zagreb að velli á útivelli í Meistaradeildinni í handknattleik í kvöld.

Fyrir leikinn í dag var Magdeburg í öðru sæti síns riðils en tvö efstu liðin fara beint í átta liða úrslit keppninnar og þurfa ekki að keppa í umspili. Zagreb var hins vegar í sjötta sæti riðilsins.

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik og skiptust liðin á forystunni. Magdeburg leiddi 16-14 í hálfleik en það var mesti munurinn á liðunum í hálfleiknum.

Í síðari hálfleik stigu Þýskalandsmeistararnir hins vegar aðeins á bensíngjöfina. Þeir komust fljótlega fjórum mörkum yfir og þann mun náðu Króatarnir ekki að brúa.

Forysta Magdeburg varð mest sex mörk líkt og munurinn var á liðunum í lokin, lokatölur 31-25 Magdeburg í vil sem þar með heldur öðru sæti riðilsins á eftir toppliði PSG.

Gísli Þorgeir skoraði þrjú mörk úr sex skotum fyrir Magdeburg í kvöld auk þess að gefa hvorki fleiri né færri en tíu stoðsendingar. Ómar Ingi Magnússon var ekki með Magdeburg vegna meiðsla sem munu halda honum frá keppni út tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×