Skoðun

Sameinumst og skerum meinið burt!

Sveinn Waage skrifar

Stundum dettur maður óvart í „Lennon-íska“ trú á mannkynið og þá er um að gera að nýta það áður en ískaldur raunveruleikinn sparkar manni til baka í febrúar-slabbið.

„Imagine“ boðskapur John Lennon er vissulega útópía en þarf nánast dáið hjarta til að tengja ekki við fallegan textann á einhvern máta. Sem samfélag tengjum við sem heild við ótrúlega fjölbreytta hluti. Hvolpar, kettlingar og ungabörn (annarra) hreyfa við öllum. Nánast. Við viljum öll frið, öryggi og hamingju. Við erum öll á móti krabbameini og öðrum ömurlegum sjúkdómum. Ekkert af þessu þarf að útskýra sérstaklega.

En er kannski möguleiki að sameinast um fleira sem við viljum og viljum ekki sem samfélag. Er möguleiki til dæmis að við sameinumst, hvar sem við erum í pólitík, trú og öðru, að ónýtur gjaldmiðill sé ekki boðlegur í nútíma samfélagi eins Ísland er. Ísland sem er svo sneisafullt af kostum og kjörum, þó svo betur megi gera á mörgum sviðum, jafnvel miklu betur.

Viljum við ekki geta horft lengur en nokkrar vikur fram í tímann í viðskiptum, viljum við ekki vexti sem eru á pari við nágrannaþjóðir, viljum við ekki losna við þessa sturluðu verðtryggingu og kaupa mat og aðrar nauðsynjar sem eru ekki dýrastar í heiminum? Erum við ekki öll þar saman?

Ónýtur gjaldmiðill á ekki að vera pólitískt rifrildi heldur þjóðar-mein sem við skerum burt eins og önnur mein. Að leggja krónunni er engin aðför að íslenskri þjóð, menningu eða öðru fallegur sem við viljum öll passa. Þessi blessaða króna er að kæfa okkur, tefja okkur, flækja okkur og KOSTA okkur svo mikið.

Í alvöru, getum við skrönglast saman upp úr skotgröfunum, virkilega horft framan í krónuna, séð hvað hún er í raun og veru, þakkað henni fyrir samfylgdina og sagt bless … og um leið; „Áfram Ísland!“

„You may say I´m a dreamer, but I´m not the only one“

Höfundur er markaðsstjóri, fyrirlesari og áhugamaður um samskipti og Húmor.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×