Handbolti

Ók 300 kíló­metra til að fá á­ritanir Vals fyrir stór­leikinn í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Stiven Tobar Valencia skrifar nafnið sitt á mynd í möppu mannsins sem heilsaði upp á leikmenn Vals.
Stiven Tobar Valencia skrifar nafnið sitt á mynd í möppu mannsins sem heilsaði upp á leikmenn Vals. @Valur.Handbolti

Valsmenn eiga fyrir höndum sannkallaðan stórleik í kvöld þegar þeir mæta Flensburg í Þýskalandi í Evrópudeildinni í handbolta.

Ljóst er að um erfiðasta leik Vals á leiktíðinni er að ræða enda Flensburg í fimmta sæti bestu landsdeildar heims, þeirrar þýsku, og á toppi riðilsins sem liðin leika í í Evrópudeildinni.

Þýskur handboltaáhugamaður virðist hafa verið öðrum fremur spenntari fyrir komu Valsliðsins. Á Facebook-síðu Valsara er sagt frá því að sá hafi ekið hátt í 300 kílómetra til að fá eiginhandaráritanir frá leikmönnum Vals, sem að sjálfsögðu urðu við því og virtust hafa gaman af.

Valsmenn hafa staðið sig vel í Evrópudeildinni í vetur og náð í fimm stig úr sex leikjum en Flensburg er með tíu stig á toppi riðilsins. Valsmenn töpuðu 37-32 fyrir Flensburg á Hlíðarenda í nóvember en máttu vera stoltir af sinni frammistöðu.

Þegar fjórar umferðir eru eftir er Valur í 4. sæti af sex liðum en fjögur efstu lið riðilsins komast einmitt áfram í sextán liða úrslit.

Valur er aðeins stigi fyrir ofan Benidorm en spænska liðið mætir á Hlíðarenda eftir viku í afar þýðingarmiklum leik.

Staðan í riðli Vals í Evrópudeildinni. Fjögur efstu liðin komast áfram í 16-liða úrslit.EHF

Valsmenn eiga svo einnig eftir að taka á móti PAUC frá Frakklandi, 21. febrúar, áður en þeir sækja Ystad heim til Svíþjóðar 28. febrúar í lokaumferð riðlakeppninnar.

Leikur Flensburg og Vals í kvöld hefst klukkan 19.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport líkt og allir leikir Vals í Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×