Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - FH 44-36 | Valssigur aldrei í hættu í áttatíu marka leik

Guðmundur A. Ásgeirsson skrifar
Valsmenn gátu leyft sér að fagna í leikslok.
Valsmenn gátu leyft sér að fagna í leikslok. Vísir/Diego

Íslandsmeiastarar Vals unnu öruggan átta marka sigur er liðið tók á móti FH í stórleik fjórtándu umferðar Olís-deildar karla í handbolta í kvöld, 44-36.

Valsmenn settu tóninn strax í byrjun, þeir mættu grimmir til leiks en það er ekki hægt að segja það sama um gestina í Hafnarfirði sem voru hikandi í öllum sínum aðgerðum til að byrja með.Valur skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins og við það tók Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, leikhlé. Hann fór yfir málin með sínum mönnum og reyndi að vekja þá til lífsins. FH-ingar svöruðu ágætlega, þó ekki nægilega vel.

Vísir/Diego

FH-ingar náðu mest að minnka muninn í tvö mörk í fyrri hálfleik en Valsmenn hleyptu þeim ekki nær en það. Heimamenn skoruðu mörk auðveld mörk og réðu gestirnirnir engan veginn við hraðann í liði Vals.

Benedikt Gunnar Óskarsson fór á kostum í fyrri hálfleiknum og skoraði tíu mörk á 15 mínútum. Maður hefur vart séð annað eins, en ný útfærsla hjá Val í yfirtölu gaf honum auðveld mörk. Útfærslan var þannig að hann beið á miðjum vellinum þegar FH-ingar voru einum færri og svo kastaði Björgvin Páll Gústafsson, markvörður Vals, boltanum upp á Benedikt. Þetta skilaði nánast alltaf undantekningarlaust auðveldu marki fyrir heimamenn.

Þegar fyrri hálfleik var lokið þá munaði sex mörkum en Aron Dagur Pálsson endaði hálfleikinn á því að skora flautumark utan af velli. Leiðin til baka var löng og ströng fyrir FH.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn vel og létu vita af því að þær ætluðu alls ekki að gefa þessa forystu upp á bátinn. FH-ingar náðu ekki að klukka hraða Valsmenn og þeim gekk rosalega illa að saxa á forskotið. FH náði að minnka muninn mest niður í fimm mörk en heimamenn fundu alltaf svör og lausnir.

Vísir/Diego

Að lokum var niðurstaðan sannfærandi sigur Vals, í raun yfirburðarsigur. Valur er núna með átta stiga forskot á toppnum og erfitt að sjá eitthvað annað lið ná þeim. Þeir eru langbesta liðið á landinu.

Af hverju vann Valur?

Gestirnir úr Hafnarfirði réðu engan veginn við hraðann sem býr í liði Vals. Íslands- og bikarmeistararnir eru líklega ótrúlega klókir í sínum aðgerðum og það er svo rosalega erfitt við þá að eiga.

Valsmenn voru rosalega grimmir í byrjun og það setti tóninn fyrir það sem var í vændum. Það er rosalega erfitt og leiðinlegt að elta þetta Valslið.

Hverjir stóðu upp úr?

Benedikt Gunnar Óskarsson var langbesti leikmaðurinn á vellinum. Magnaður leikur hjá honum þar sem hann gerði 13 mörk í 16 skotum.

Stíven Tober Valencia kom sterkur inn og Björgvin Páll varði vel í markinu. Hjá FH voru Einar Bragi Aðalsteinsson og Jóhannes Berg Andrason báðir tveir mjög áræðnir. Einar Bragi gerði sjö mörk og Jóhannes Berg gerði sex mörk.

Hart barist.Vísir/Diego

Hvað gekk illa?

FH fékk enga markvörslu og vörnin þeirra var götótt. Þeim gekk herfilega að hægja á sóknarleik Valsmanna og það varð þeim að falli. Gegn Val er afar vont að byrja illa en það gerðu FH-ingar í dag.

Hvað næst?

Valur spilar við KA á Akureyri eftir nákvæmlega viku og FH mætir Fram um næstu helgi, næsta sunnudag.

„Við vorum eftir á í einu og öllu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu“

Sigursteinn Arndal viðurkennir að sínir menn hafi tapað fyrir betra liði.Vísir/Diego

„Þetta var ekki gott. Ég er svekktur,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, eftir sannfærandi tap gegn toppliði Vals í Olís-deildinni í dag.

„Við töpuðum fyrir miklu betra liði hérna í dag. Við vorum eftir á í einu og öllu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Þú getur ekki gefið Val neitt forskot.“

FH byrjaði afar illa og lenti 4-0 undir. Sigursteinn tók þá leikhlé til að reyna að trekkja menn í gang.

„Við vorum að reyna að ná tökum á okkar leik og því sem við vorum búnir að ákveða að gera. Það er rándýrt að gefa þeim svona forskot. Þeir eru frábært lið. Við gerðum þeim alltof auðvelt fyrir.“

FH tókst illa að halda í við hraðann sem Valsmenn voru að bjóða upp á. Hversu erfitt er að halda í þennan hraða leik Vals?

„Það gefur augaleið að í dag var það mjög erfitt, en að því sögðu þá spiluðum við ekki vel. Það verður ekki tekið neitt af Val, en við erum óánægðir með nánast flest í okkar leik. Við vorum góðir fyrir jól í því að fara ekki of hátt upp þegar við unnum og ekki of langt niður þegar við töpuðum í byrjun móts. Við þurfum að halda því áfram.“

„Við erum búnir að ræða það í allan vetur að bæta okkur viku frá viku. Það hefur gengið vel, en við vorum lélegir í dag. Við þurfum að setja á okkur vinnuhanskana og æfa vel núna,“ sagði Sigursteinn að lokum.

„Þetta er eitthvað nýtt sem enginn hefur séð“

Benedikt Gunnar Óskarsson stal senunni á Hlíðarenda í kvöld.vísir/Diego

„Mér líður mjög vel. Ég er þreyttur bara en annars líður mér frábærlega,“ sagði Benedikt Gunnar Óskarsson sem átti sannkallaðan stjörnuleik í sigri Vals gegn FH í kvöld.

Benedikt skoraði tíu mörk á fyrstu 15 mínútum leiksins og endaði hann með 13 mörk í leiknum.

„Ég veit það ekki alveg,“ sagði Benedikt aðspurður að því hvernig sér hefði liðið á fyrstu 15 mínútunum. „Ég ætlaði bara að vera góður í dag. Svo small þetta allt í byrjun. Ég hélt áfram að skjóta og þetta fór allt inn. Það var geggjað.“

Ný útfærsla hjá Val í yfirtölu gaf Benedikt auðveld mörk. Útfærslan var þannig að hann beið á miðjum vellinum þegar FH-ingar voru einum færri og svo kastaði Björgvin Páll Gústafsson, markvörður Vals, boltanum upp á hann. Þetta skilaði undantekningarlaust auðveldu marki fyrir heimamenn.

„Hann (Snorri Steinn, þjálfari Vals) sagði þetta við mig á æfingu í gær. Mér fannst þetta geggjuð hugmynd. Þetta er eitthvað nýtt sem enginn hefur séð. Þetta kom mér á óvart, þetta virkaði sem var geggjað. Ég veit ekki hvort við höldum þessu áfram, ég vona það.“

Benedikt er ánægður með hvernig tímabilið hefur verið hingað til.

„Þetta hefur verið frábært, við ætlum að halda svona áfram,“ sagði þessi öflugi leikmaður að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira