EddezeNNN eitraður gegn LAVA

Snorri Rafn Hallsson skrifar
eddezennn

Þegar liðin mættust fyrr á tímabilinu í Inferno tókst LAVA með ótrúlegum hætti að vinna Dusty 16–12 eftir að hafa verið undir 11–4 í hálfleik. Leikur gærkvöldsins fór líka fram í Inferno og fékk Dusty því tækifæri til að hefna sín fyrir fyrri leikinn sem var sá fyrsti sem Dusty tapaði á tímabilinu.

LAVA vann hnífalotuna og kaus að byrja í vörn en kaotískir Dusty menn voru í miklum ham og unnu fyrstu loturnar á skemmtilegan hátt. TH0R og StebbiC0C0 voru beittir og í fjórðu lotu sneru þeir vonlausri stöðu, tveir gegn fimm, sér í hag og unnu. 

Í stöðunni 5–0 fyrir Dusty átti TripleG tvöfalda fellu til að aftra sókn Dusty inn á sprengjusvæðið og með aðstoð Instant fékk LAVA sitt fyrsta stig. Leikur Dusty slípaðist hins vegar örlítið til, Detinate fór að láta finna fyrir sér og liðið hafði betri stjórn á kortinu. Þannig jók liðið forskot sitt enn meira og LAVA lagði sjaldan í að reyna að aftengja sprengjuna. Undir lok hálfleiksins var EddezeNNN kominn í gírinn að auki og kominn með fleiri fellur en allir hinir, beitti búnaði gríðarlega vel og það hafði það að segja að Dusty vann hálfleikinn með 11 stiga mun.

Staða í hálfleik: LAVA 2 – 13 Dusty

Dusty vann fyrstu tvær loturnar til að koma sér í sigurstöðu en það var eins og lifnaði yfir LAVA þegar leikurinn var svo gott sem úti. Loksins tókst þeim að vinna lotur, þar sem TripleG náði fjórfaldri fellu og Instant bakkaði hann upp. Tengdu þeir saman fimm lotur áður en Dusty gerði út um þá í 22. lotu.

Lokastaðan: LAVA 6 – 16 Dusty

Næstu leikir liðanna:

  • Dusty – FH, fimmtudaginn 9/2 kl. 19:30
  • Fylkir – LAVA, fimmtudaginn 9/2 kl. 20:30

Sýnt verður frá leikjunum í beinni útsendingu á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira